143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Að gefnu tilefni vil ég upplýsa hér og nú að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, fór utan í morgun og er á fundi Alþjóðaþróunarbankans. Hann kemur ekki fyrr en á fimmtudagsmorgun. Þess vegna er hæstv. ráðherra ekki hér.

Að öðru leyti vil ég upplýsa að á þingflokksformannafundi, á föstudag frekar en mánudag, þegar dagskrá þingsins fyrir þessa viku og þessa daga með þessi tvö stóru mál var lögð fram, ríkti skilningur á milli þingflokksformanna allra flokka um að þessi mál ættu að fá þá umræðu sem þau þyrftu. Þess vegna get ég ekki tekið undir það að hér sé málþóf vegna þess að formenn þingflokka samþykktu að þessi tvö mál fengju þá umræðu sem þau þyrftu, þau væru stór og viðamikil, það væri ljóst að það væri ágreiningur um þau bæði og þess vegna þyrftu þau þann tíma sem þingmenn teldu þau þurfa.

Hér hafa talað bæði stjórnarþingmenn og (Forseti hringir.) þingmenn stjórnarandstöðunnar og verið með andsvör. Ég bið okkur bara, sem þingmenn, að gefa þessum málum það rými sem þau þurfa. Þetta skiptir fólkið í landinu máli hvað sem hver segir um það.