143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér hafa komið fram sérstakar óskir í beiðnum um fundarstjórn forseta og ég reikna alveg með því að á meðan ég held ræðu mína muni virðulegur forseti gera atlögu að því að koma skilaboðum til hæstv. forseta Einars K. Guðfinnssonar um þær óskir sem hafa komið fram um að haldinn verði þingflokksformannafundur. Það virðist vera uppi einhver misskilningur um það hvernig umræðu um þetta mál verður háttað og mér þætti því vænt um ef hæstv. forseti gæti staðfest að þessum boðum hafi verið komið til skila. Ég lít svo á þegar hæstv. forseti kinkar kolli að boðunum hafi verið komið til hæstv. forseta Einars K. Guðfinnssonar. Þetta eru alveg skýrar óskir.

Ég vildi taka til máls um þetta mál fyrst og fremst vegna þess að hér hafa verið, eins og hefur komið fram hjá ýmsum sem hafa talað í umræðu um fundarstjórn forseta, ágætar umræður um annað af tveimur stóru málum ríkisstjórnarinnar sem lutu að kosningaloforðum þeim sem voru gefin fyrir kosningar. Sú umræða öllsömul hefur kannski að einhverju leyti einkennst af ýmsum upphrópunum, ég leyfi mér að segja það, m.a. með því að því miður þótti mér lengst af talaðar niður þær aðgerðir sem voru framkvæmdar á síðasta kjörtímabili fyrir heimilin í landinu, aðgerðir sem miðuðu að því að koma til móts við þá sem verst stóðu hvað varðaði skuldastöðu en ekki síður að til móts við þá sem áttu í erfiðleikum með ná endum saman í tekjum og með að greiða af húsnæði sínu. Það var farið í ýmsar aðgerðir sem ég þarf ekki að eyða mínum tíma í að rifja upp, greiðslujöfnunarleið, 110%-leið, sérstakar vaxtabætur, gríðarmiklar aðgerðir sem eftir stanslausa gagnrýni stjórnarandstöðuflokkanna þar sem ávallt var talað um að ekkert væri gert voru staðfestar á mjög eftirminnilegan hátt á blaðamannafundi formanna ríkisstjórnarflokkanna í Hörpu þar sem sýnt var fram á hve miklu þessar aðgerðir hefðu numið eða hátt í 300 milljónum. Þó að stór hluti af því væri vegna dóms um gengistryggðu lánin var um það bil helmingur aðgerðanna beinharðar aðgerðir síðustu stjórnvalda.

Síðan voru aðgerðirnar tvær kynntar og við munum auðvitað nota tímann og ég hyggst aðallega nota tímann í að ræða síðara frumvarpið sem er á dagskrá, þ.e. frumvarp um almenna skuldaleiðréttingu. En við ræðum sem sagt lög um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að rekja það frumvarp en mig langar að varpa upp nokkrum álitamálum sem ég tel mikilvægt að við höldum til haga við umræðuna og er farið stuttlega yfir í sameiginlegu nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en raunar vísað til þess að talsvert efnismeira álit liggi fyrir um hitt málið, þ.e. skuldaleiðréttinguna.

Stóra málið í þessu er sú orðræða sem hefur verið um að það sé um almenna aðgerð að ræða. Mér finnst helsta gagnrýnin og það sem ég tel að hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti við meðferð nefndarinnar vera að almenn getur sú aðgerð vart verið sem ekki nær til verulegs hluta heimila. Þá er ég að sjálfsögðu að vitna í leigjendur því að það kemur hér klárlega fram að hlutfall leigjenda eða fjölskyldna á leigumarkaði hefur hækkað verulega eftir hrun. Það kemur líka fram að þeir sem eru í leiguhúsnæði eru almennt tekjulægri en þeir sem eru í eigin húsnæði og því vekur það upp spurningar um hvaða möguleika þeir aðilar munu hafa á því að nýta sér þetta úrræði. Það kom til að mynda fram að um 70% öryrkja munu ekki geta nýtt sér úrræði frumvarpsins og hlutfall öryrkja í leiguhúsnæði er hærra en annarra. Það var rökstutt sérstaklega með þessu frumvarpi að þó að skuldaniðurfellingin sem slík mundi ekki koma til móts við leigjendur mundi þessi hluti aðgerðanna koma til móts við þá. En þegar hópur leigjenda er skoðaður kemur þar fram að launatekjur til að mynda öryrkja, fyrir utan að 74% þeirra hafa engar launatekjur — það eru líka námsmenn sem eru mjög mikið á leigumarkaði fyrir utan þá gagnrýni sem hefur komið fram á ellilífeyrisþega. Þar horfir að einhverju leyti öðruvísi við því að við reiknum væntanlega með því að flestir þeirra séu í einhverri annarri stöðu, en þetta er nokkuð sem ég tel ekki að hafi verið komið til móts við við meðferð frumvarpsins og kemur auðvitað mjög skýrt fram í umsögnum t.d. Samtaka leigjenda.

Það er líka rætt um sparnaðinn og meiri hlutinn leggur áherslu á að hér sé verið að hvetja til sparnaðar og ég tek undir það sjónarmið að mikilvægt er að hvetja til sparnaðar í samfélaginu. Það er ákveðin eftirsjá að skyldusparnaðarkerfinu sem hér var á sínum tíma, sem var aflagt. En þá velti ég fyrir mér: Hér kemur fram frumvarp og ég get tekið undir að það sé fyrsta skrefið í því að nýta þennan séreignarsparnað sem var hugsaður sem hluti af lífeyrissparnaði því að vissulega voru opnaðar heimildir á síðasta kjörtímabili til að greiða út séreignarsparnaðinn til að nýta hann með einhverjum hætti. Nú er í raun og veru verið að leggja til að fólk geti lagt þennan séreignarsparnað, ekki inn á lífeyriskerfi sitt heldur inn á húsnæði. Það vakna að sjálfsögðu spurningar þegar síðan eru kynntar hugmyndir, sem við höfum ekki endanlega séð útfærðar, um að þessu verði breytt varanlega, þ.e. að séreignarsparnaður verði áfram nýttur til að leggja fyrir inn á húsnæði. Verið er að ráðast í ákveðna aðgerð. Við erum í raun og veru að breyta eðli sparnaðarins. Það kann að vera gott en við erum ekki búin að taka grundvallarumræðuna um það hvaða áhrif það hefur á lífeyrissjóðakerfið og lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar.

Ég velti því upp hvort við þyrftum þá ekki að vera að ræða þessar tillögur í einhverju samhengi við framtíðarsýn í því, hvort við séum með þessu að velta auknum kostnaði yfir á almannatryggingakerfið. Mér finnst því ekki svarað á fullnægjandi hátt í nefndaráliti meiri hlutans, en það kann þó að vera að framsögumaður málsins geti skýrt það betur fyrir mér í andsvari, þar sem segir að áhrifin á lífeyriskerfið séu þau að 60–82 milljarðar renni ekki til ávöxtunar hjá vörsluaðilum séreignarsparnaðar fram til ársins 2019. Þetta bætist við 100 milljarða kr. sem þegar hafa verið teknar út úr kerfinu en þau draga þá ályktun að jákvætt sé að létt verði á fjárfestingarþörf lífeyriskerfisins sem í ljósi fjármagnshafta geti dregið úr hættu á bólumyndun og benda á að lífeyrissjóðirnir séu ekki neikvæðir gagnvart því. Það sem ég segi um þetta er: Skiptir ekki máli í þessari ræðu um grundvallaratriði hvert við stefnum með lífeyrissjóðakerfið? Horfum við á það að hið opinbera komi í auknum mæli að fjármögnun lífeyrissjóðakerfisins, viljum við endurskipuleggja það á einhvern hátt? Erum við sannfærð um að það kerfi sem við höfum byggt upp með öllum þessum fjölda lífeyrissjóða í þessu litla landi virki sem skyldi? Ég met það ekki svo að við getum afgreitt þetta án þess að minnsta kosti að segja að við ætlum að efna til grundvallarumræðu um það að við séum að breyta þessu sparnaðarformi í raun og veru varanlega yfir í húsnæðissparnað. Eins og ég segi kann það að vera eitthvað sem er gott að gera en þá þarf að taka þá grundvallarafstöðu og ræða hvaða áhrif það hefur á lífeyriskerfið og hvort við sjáum fram á frekari breytingar á lífeyriskerfinu.

Þessum áhyggjum er líka varpað fram í nefndaráliti minni hlutans, þ.e. að séreignarsparnaðarkerfið hafi verið byggt upp með það að leiðarljósi að það mundi létta á almannatryggingakerfinu. Vissulega hefur það kerfi verið veikt og þetta veikir það enn frekar og nú er verið að leggja fram að þetta verði framtíðin, þetta samblandaða kerfi, þannig það er eitthvað sem ég tel hreinlega að skorti grundvallarumræðu um sem verður væntanlega tekin þegar við ræðum þessi framtíðarmál í húsnæðismálunum.

Síðan skal þess getið líka að bent hefur verið á, þótt það sé ekki reifað í nefndaráliti minni hlutans umfram það að bent er á að málið sé vanreifað, og það er kannski líka eitthvað sem við þurfum að ræða og við hljótum að velta því fyrir okkur hvaða áhrif nákvæmlega frumvörp á borð við þetta og það sem er næst á dagskrá munu hafa á jöfnuð í samfélaginu. Spurningin hlýtur að vera sú ef þessar aðgerðir sem varða séreignarsparnaðinn, ef aðgerðir þær sem við ræðum í næsta máli um skuldalækkun nýtast fremur þeim sem eru tekjuhærri, og á það er bent í nefndaráliti minni hlutans að breytingar á hámarksfjárhæð milli nýtingar úrræðanna auki jafnvel enn á þann mun, hvort þessi úrræði munu leiða til aukins jöfnuðar eða aukins ójöfnuðar. Ég átti ágætisorðastað við hæstv. forsætisráðherra um daginn sem benti á að hér hefði á undanförnum árum jöfnuður aukist mjög, í tíð síðustu ríkisstjórnar þó að hann vildi sérstaklega líta til síðustu 12 mánaða í því samhengi. Það er ekkert launungarmál og hefur verið sýnt fram á í öllum rannsóknum og stúdíum sem hafa verið gerðar um þetta mál að jöfnuður jókst eftir hrun. Það var af ýmsum orsökum, bæði af því að tekjuháir hópar hröpuðu niður en líka af því að skattkerfinu var beitt á ákveðinn hátt beinlínis til að auka jöfnuð. Við hljótum að velta því fyrir okkur þegar um svona risavaxnar aðgerðir er að ræða hvernig þær munu nýtast til að auka hér jöfnuð.

Nú var því haldið fram af hæstv. forsætisráðherra þegar ég átti orðastað við hann að það sé göfugt markmið í sjálfu sér. Ég veitti því athygli að bæði hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kvöddu sér hljóðs undir andsvörum og mér þætti gott að vita hvort þeir telji að þessar aðgerðir muni nýtast til að auka jöfnuð í samfélaginu, hvort þeir hafi ekki áhyggjur af þeim sem ekki geta eða hafa ekki getað lagt fyrir af séreignarsparnaði og hvaða önnur úrræði þeir sjái fyrir sér fyrir þá aðila þegar kemur að því að greiða úr húsnæðisvanda þessa hóps. Það verður að segjast að þegar við setjum þetta allt í samhengi, líka við þær tillögur sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti okkur og mun nú halda áfram vinnu við, hef ég mestar áhyggjur af því hvernig málum verður háttað í húsnæðismálum þeirra sem litlar hafa tekjurnar, þegar við skoðum þær tillögur sem kannski snúast ekki síst um kerfisbreytingu, fyrst og fremst um kerfisbreytingu, en ég ætla ekki að gera það að umtalsefni hér heldur bara setja í þetta samhengi. Kannski er ekki öllum spurningum hvað varðar almenning, fólkið í landinu svarað. Ég velti fyrir mér framtíðarsýn hvað varðar tekjulágt fólk sem getur ekki nýtt sér þessa leið til að geta lagt fyrir inn á höfuðstól húsnæðislána, sem horfir ekki fram á skuldaniðurfellingu með þeirri aðgerð sem er næst á dagskrá. Hvaða leiðir erum við að horfa á? Ætlum við að tala fyrst og fremst um leigumarkað og hvernig ætla stjórnvöld að stuðla að honum? Og hefur þá verið horfið frá því gamla sjónarmiði sem var hér að allir ættu að geta nýtt sér kerfið til að geta keypt sér eigið húsnæði og komið sér upp eigin þaki yfir höfuðið? Það er líka stórpólitískt mál sem ég tel að einhver grundvallarumræða eigi eftir að fara fram um.

Þá kem ég að lokum að því sem ég hef að segja. Mér finnst að að sumu leyti að við séum að ræða aðgerð í ákveðnu tómarúmi frá annarri stefnumótun. Við höfum séð glitta í nýja stefnumótun í húsnæðismálum sem á eftir að útfæra, mörgum spurningum er ósvarað. Við erum ekki byrjuð að ræða einhverja breytingu á framtíðarstefnumótun lífeyrissjóðakerfisins í landinu og um leið erum við að fara í mjög stóra aðgerð, mjög dýra aðgerð, aðgerð sem kostar meira en talið var upphaflega þegar allt er talið til, allur kostnaður í kringum málið, án þess að grundvallarumræða hafi farið fram. Þess vegna svíður manni það að sjálfsögðu þegar hér er rætt um að það standi yfir eitthvert málþóf um risavaxin mál, af því að grundvallarumræða hefur ekki farið fram. Þess vegna er ósköp eðlilegt að manni renni í skap þegar maður er sakaður um það, án þess að hafa tekið fyrstu ræðu í máli á borð við þetta stóra mál, að hér standi yfir málþóf. Þegar þessum stóru spurningum er varpað upp finnst manni það auðvitað dapurlegt.