143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, fyrst að þessu með séreignarsparnaðinn og varðandi húsnæðissparnað. Ég er ekki sammála því að sú aðferð verði notuð til framtíðar sem mér finnst boðuð í nýju húsnæðisfrumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra. Ég held að við eigum að láta þetta kerfi vera og ef við kjósum að búa til eitthvert húsnæðissparnaðarkerfi gerum við það. Ég held að það sé vel hægt og að það sé af hinu góða því að ég tel að margir taki undir það að þegar hætt var söfnun sparimerkja á sínum tíma, þó að við höfum öll heyrt af einhverri misnotkun á því o.s.frv., var það samt sem áður minni hlutinn sem stundaði slíkt, ekki meiri hlutinn. Það var af hinu góða og varð til þess að fólk átti einhvern stofn til að kaupa sér húsnæði.

Varðandi verðbólguþáttinn. Já, vissulega er það tekið fram að frumvarpið eigi að vega svolítið upp á móti hinu en hér hefur verið talað um auðsáhrifin sem verða samt til vegna þessa frumvarps. Við getum verið sammála um að þetta frumvarp sé vissulega fyrir þá sem hafa hærri tekjur frekar en þá sem hafa minna. Það má deila um hvað fólki finnst um hitt. Ég held að þar af leiðandi verði það frekar til að auka neyslu en ekki.

Varðandi verðtrygginguna sé ég ekki fyrir mér að hægt sé að afnema verðtrygginguna í heild sinni, ekki nema að fólk sé tilbúið til þess að búa við hærri vexti og breytilega vexti. Þegar vitnað er til annarra landa og sagt að hvergi annars staðar í heiminum sé verðtrygging þá eru forsendurnar ekki endilega þær að vextir séu þá stabílir og lágir. Það er það sem við þurfum þá að horfast í augu við; er það þá (Forseti hringir.) það sem við viljum, þ.e. hafa hreyfingu á þeim til móts við það sem verðtryggingin gefur?