143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þau sjónarmið sem við ræddum gagnvart þessum tiltekna hópi, eldri borgurum, koma fram í nefndaráliti á bls. 5 og ég gerði grein fyrir þeim í framsögu. Ég vil benda á skuldaleiðréttingafrumvarpið sem við eigum eftir að ræða og er hluti af heildarpakka þessara aðgerða, eldri borgarar eiga fullan rétt á að nýta sér þau úrræði og þar getur niðurfærsla að hámarki verið 4 milljónir. Það er þakið en auðvitað fer það eftir því hversu skuldsettir aðilar eru. Þetta fólk hefur verið lengi á vinnumarkaði og hefur verið stóran hluta ævinnar að koma sér upp séreign og borga niður skuldir og unnið samviskusamlega að því að eignast húsnæði sitt og stærstur hluti þessa hóps er ekki mjög skuldsettur, en þetta úrræði getur beinst að honum. Fólkið getur vissulega nýtt sér þann hluta aðgerðarinnar. Jafnræðissjónarmiðið kemur að sjálfsögðu alltaf til kasta gagnvart hópum þegar við erum að skoða aðgerðir eins og þær sem við ræðum hér.

Ég vil þakka þær samræður sem ég átti við hv. þingmann. Þær voru mjög gagnlegar og hann hefur komið með mjög gagnlegar ábendingar í umræðunni og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það. Hann kom inn á að ég hefði í bloggfærslu rætt málþóf og ég bið hann afsökunar á því ef þær vangaveltur hafa verið ómaklegar.