143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir þessar vangaveltur og það er rétt, sem hér kemur fram hjá henni, að það er reifað í áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar hver tilgangur þessa séreignarsparnaðarkerfis hafi verið á sínum tíma. Ég held að það sé rétt að það séu stórar kynslóðir sem hefja töku eftirlauna á þriðja áratug þessarar aldar þannig að með því að veikja þetta kerfi megi halda því fram með réttu að það geti komið niður á byrðum almannatryggingakerfisins til framtíðar.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði hér um séreignarsparnaðarkerfið vil ég vísa í umsögn Alþýðusambandsins, ég held það komi fram í henni en ég hef ekki náð að fara nægilega rækilega yfir hana. En þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þeim sviðsmyndum sem birtar eru í athugasemdum frumvarpsins má ætla að 47–61,4 milljarðar af greiðslum í séreignarsjóð fari til greiðslu á íbúðaskuldum …“

Nei, fyrirgefið, herra forseti, þetta er um annað efni. Ég held að ég verði að fá að koma betur að þessu atriði í síðara svari mínu við hv. þingmann.