143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á að hrósa hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að vera maður að meiri og biðjast afsökunar á því að litið hafi verið svo á að um málþóf væri að ræða hjá okkur. Ég er nú í minni fyrstu ræðu um bæði málin. Það leit út fyrir að ég kæmist ekki í ræðu í gærkvöldi út af því að við vorum að landa niðurstöðu um þinglok og mér þótti það afar miður. Mér finnst þetta þörf mál sem við erum að taka í gegnum þingið og líka þau mál sem fyrrverandi ríkisstjórn var með, til að finna leiðir til að hjálpa þeim sem fóru hvað verst út úr því mikla hruni sem varð hér á landi.

Engin af þessum málum eru fullkomin. Ekki er hægt að taka á svona risastóru verkefni án þess að mistök verði, það liggur í hlutarins eðli. Þess vegna finnst mér gríðarlega mikilvægt þegar við skoðum þessi mál og þessa leið — og nú ætla ég sérstaklega að skoða séreignarsparnaðinn. Ég hefði viljað skoða hitt málið en þannig er það með þingstörfin að ég veit ekki einu sinni hvort maður fái tíma til að fjalla um það, um niðurfellingu á skuldum. Þessi tvö mál hanga saman en eru þó ólík að mörgu leyti.

Það má segja að mér líði aðeins skár gagnvart þessari tillögu um séreignarsparnaðinn en hinni leiðinni. Þegar verið er að ráðast í þá leið þá er hún svo fjarri því sem lagt var upp með í aðdraganda kosninga. Kosta átti þá leið með peningum frá hinum svokölluðu hrægömmum. Það er ljóst núna að svo verður ekki og það veldur mér nokkrum áhyggjum. (Gripið fram í.) (ÞorS: Hver er að borga það?) — Viltu ekki bara fara í andsvör, hv. þingmaður? Það er alveg frjálst, ég býð þér að fara í andsvör í staðinn fyrir að grípa fram í, ég heyrði ekki hvað þú sagðir. En þér er alveg sjálfsagt að koma hingað upp ef þú vilt spyrja mig að einhverju, hæstv. varaforseti. Hæstv. varaforseti vill ekki tjá sig heldur bara trufla mig á annan hátt.

Ég er ekkert að reyna að gera lítið úr þessum leiðum, það er fjarri lagi. Ef þingmaðurinn hefði verið í þingsalnum þá hefði hann kannski áttað sig á því að ég er bara að reyna að velta upp ýmsu sem tengist hinum ýmsu leiðum sem farnar hafa verið, bæði hjá fyrrverandi ríkisstjórn og hjá hæstv. núverandi ríkisstjórn. Ég var að lýsa því yfir að ég hefði nokkrar áhyggjur af því að það sem lagt var til hér í aðdraganda kosninga — ég ætla ekki að fara að munnhöggvast um upphæðirnar. Það voru einhverjir sem spurðu hæstv. forsætisráðherra hvort það væru 300 milljarðar. Hann sagði ekki nei við því. Það sem ég er alin upp við í íslensku þá er þögn sama og samþykki en ég ætla ekki að fara að orðaskakast út af því. Ég hef áhyggjur af því að ekki er lengur alveg kristaltært hvort þessi niðurfelling á skuldum kemur frá hinum svokölluðu hrægammasjóðum. Ég mundi gjarnan vilja hafa það alveg kristaltært áður en þetta mál fer til afgreiðslu en það mun ekki verða.

Ég er hrifnari af þessari leið með séreignarsparnaðinn og hún er til umfjöllunar hér. Ég hef áhyggjur í tengslum við séreignarsparnaðinn af því að það mun ekki nýtast öllum og ekki þeim sem eru á leigumarkaði. Ég var sjálf mjög lengi á leigumarkaði í hinu svokallaða góðæri. Það var mjög erfitt að vera á leigumarkaði út af því að maður býr við mikið óöryggi og það er ekki hægt að spara, sér í lagi ef maður er sjálfstætt foreldri. Þá er bara ómögulegt að spara fyrir því að kaupa sér húsnæði. En ég var ein af þeim fjöldamörgu Íslendingum sem vildu geta verið í leiguhúsnæði og lít á það sem góðan kost. Ég hef oft búið erlendis og vil ekki endilega vera fjötruð í mína átthaga, ég vil geta fengið að haga seglum eftir vindi eftir því hvert störf mín bera mig.

Mig langaði, í ljósi þess að við erum að fjalla hér um séreignarsparnaðinn, aðeins að grípa niður í umsögn Samtaka leigjenda á Íslandi varðandi þetta tiltekna þingskjal. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samtökin gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa, allt frá bankahruni,“ — og þá erum við ekki bara að tala um þessa ríkisstjórn heldur fyrrverandi ríkisstjórn — „einbeitt sér að úrræðum og lausnum fyrir fasteignaeigendur en hafa ekki komið með nein úrræði fyrir leigjendur. Sem dæmi hafa fasteignaeigendur fengið „auka“ vaxtabætur óháð tekjum allt frá bankahruni á meðan húsaleigubætur hafa staðið í stað. Þá hafa fasteignaeigendur fengið að „frysta“ lán sín í allt að þrjú ár án þess að greiða krónu í húsnæðiskostnað, en á meðan hafa leigjendur þurft að greiða mjög háa leigu.

Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sýnt leigjendum þessa ósanngirni og ójafnræði, þegar kemur að úrræðum og lausnum, vilja Samtök leigjenda á Íslandi (SLÍ) engu að síður koma með athugasemdir við núverandi tillögur ásamt því að hvetja stjórnvöld til að bregðast við áskorun SLÍ um að jafna hlut leigjenda þegar kemur að úrræðum og lausnum fyrir fólk á fasteignamarkaði (kaup / leiga).

Samtökin tjá sig lítið um niðurfellinguna á höfuðstólum lána, nema þegar kemur að upphæðinni. Þarna er verið að setja 80 milljarða í niðurfellingu þar sem ríkir mikil óvissa um árangur. Samtökin telja að þessir 80–140 milljarðar mættu nýtast betur til að hefja uppbyggingu á leigumarkaði þar sem markmiðið væri að bjóða upp á húsnæði sem uppfyllir lágmarksþarfir fyrir „viðráðanlegt“ verð. Viðráðanlegt verð er skilgreint sem 25% af lægsta launataxtanum í landinu.“

Ég hef verið lengi á leigumarkaði og yfirleitt er maður að borga einhvers staðar á milli 50–70% af tekjum sínum í leigu. Ástandið var slæmt á meðan ég var á leigumarkaði, það er ár frá því að ég fór af leigumarkaði og það er enn verra í dag. Hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir hefur ekki náð að koma með inn í þingið nægilega snemma tillögur sínar að breyttu húsnæðiskerfi, en mér finnst einmitt mikilvægt að við vinnum þessi mál samhliða.

Ég hef áhyggjur af nemendunum sem þurfa að finna sér húsnæði næsta haust og öllu því fólki sem missir húsnæði sitt í sumar út af því að túristarnir verða settir inn í það. Ég hef áhyggjur af því að þessi hópur, út af því að hann hefur ekki það sterka málsvara, verði út undan. Mig langar til að hvetja þingmenn stjórnarliðsins til að vera mjög vakandi fyrir þessu vandamáli og finna lausnir þar að lútandi. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég og minn flokkur mun ekki hafa nein tök á því að breyta einu eða neinu í tillögum ríkisstjórnarinnar en mig langar til að biðla til hæstv. ríkisstjórnar og hv. þingmanna að huga að leigjendum því að neyðin er gríðarlega mikil.

Ég keyrði til dæmis um daginn um Vogahverfið þar sem iðnaðarhverfið er og sá að þar voru ansi margar gardínur í húsnæði þar sem ekki eiga að vera íbúar. Þar er mjög mikið af fólki sem hefur neyðst til að fara inn í ósamþykkt húsnæði sem er ekki mönnum bjóðandi.

Ég veit ekki hver framtíðarsýnin er. Það gæti kannski einhver svarað mér því: Hver er framtíðarsýnin með því að nota séreignarsparnað? Ég hélt að séreignarsparnaður væri aukalífeyrissjóður þannig að maður mundi ekki svelta þegar maður yrði gamall. Það var kynnt þannig að maður ætti að setja aura í séreignarsparnað svo að maður mundi lifa af þegar maður væri orðinn gamall. Þannig hefur þetta alltaf verið auglýst og kynnt. Er þetta einhver hugsun til langtíma eða hver er hugmyndafræðin á bak við þennan séreignarsparnað versus það að í framtíðinni mun mjög sennilega verða erfitt að kaupa sér húsnæði og safna fyrir því fyrir ákveðna hópa samfélagsins? Hver er hugsunin gagnvart þeim hópum?

Ég veit fyrir víst að með hækkun húsaleigubóta, þó að ég sé ekki að mæla gegn því, hækkaði markaðsverð alltaf samhliða húsaleigubótunum. Oft er það þannig að þeir sem leigja út húsnæði spyrja hvað maður fái mikið í húsaleigubætur upp á það hvað þeir geti rukkað mann mikið fyrir leigu. Mig langar að fá betri tilfinningu fyrir framtíðarsýninni varðandi séreignarsparnað og leiðir til að borga niður höfuðstólinn, sem mér finnst frábær hugmynd, mér finnst það mjög góð leið. En ég velti því fyrir mér hvort hugmyndafræðin á bak við séreignarsparnaðinn rími við þetta út af því að það geta ekki allir gert þetta. Mér hefur fundist erfitt að sjá skýrt hvert ríkisstjórnin er að fara með þetta. Er verið að bregðast við neyðarástandi? Er ekki gert ráð fyrir því að það neyðarástand muni verða viðvarandi í framtíðinni? Það tekur nefnilega tíma að byggja upp leigumarkaðskerfi, það mun ekki gerast á einni nóttu.

Mín helsta gagnrýni á þetta mál er sú að mér finnst skorta heildræna sýn í þetta. Mér skilst að það sé kannski að einhverju leyti út af því að hugmyndafræði flokkanna er ólík. Sjálfstæðisflokkurinn er hlynntur séreignarsparnaðarleiðinni en ekki eins hlynntur hinni leiðinni þannig að einnig er um að ræða hugmyndafræðilega togstreitu sem er mjög slæmt.

Ég óska þess að við þingmenn bærum gæfu til að vera mjög samhent um það hvernig við ætlum að leysa framtíðina saman. Ég held að það sé það sem við eigum að leggja mikla áherslu á þegar sú vinna kemur hingað inn í þingið. Ég vona að okkur takist það. Ef einhverjir hnökrar eru vona ég að við getum við fundið málefnalegar leiðir til að leysa þá. Ísland hefur sárlega vantað fleiri möguleika inn í búsetuúrræðin.

Ekki má heldur gleyma öllum þeim sem búa úti á landi, til dæmis þeim sem búa í þeim byggðarlögum sem misstu kvótann til Grindavíkur. Fasteignamatið, það sem þeir geta fengið fyrir húsin sín, lækkaði þannig að þeir eru fastir með eignir en þurfa kannski að flytja til Grindavíkur og þurfa þá að borga miklu hærri upphæð fyrir sín búsetuúrræði. Ástæðan fyrir því að ég tek það upp er sú að það munu alltaf koma upp krísur, það liggur í hlutarins eðli þegar maður er með flókið samfélag.

Mér finnst grunnhugmyndin góð en ég verð að viðurkenna að ég er ekkert viss hvort vegur þyngra, hvort þetta er gott eða slæmt. Ég veit ekki hvort Búseta hefur verið bætt inn í en það eru ákveðnir hópar sem þetta mun ekki taka til. Því langaði mig að fá úr því skorið hvort til standi á skýran hátt að koma til móts við þá hópa. Sér í lagi er brýnt að taka á þeim miklu vandamálum sem samfélag okkar er í þegar kemur að leiguhúsnæði. Ég er sannfærð um að stór hluti þeirra barna sem búa við sára fátækt á Íslandi eru börn foreldra sem búa í leiguhúsnæði, ég veit ekki hvort gerð hefur verið úttekt á því.

Nú er mikið af nýjum þingmönnum á Alþingi. Mig langaði til að útskýra það fyrir þingmönnum að þegar búið er að gera samkomulag á milli þingflokksformanna, um að taka frá dag fyrir hvort mál fyrir sig í svona stórum málaflokki, er fjarri lagi að það geti flokkast sem málþóf. Málþóf er það sem þingmenn upplifa í kringum ESB-tillöguna, það var málþóf, til að vinna tíma fyrir almenning til að bregðast við ástandi sem kallaði á slíkar aðgerðir. Málþóf er yfirleitt verkfæri og ekki bara til að skapa sér samningsstöðu heldur líka, ef mál eru umdeild, til að skapa rými fyrir almenning og þingmenn til að fá upplýsingar. Í kringum Icesave tók ég þátt í málþófi og viðurkenndi það. Ég sé engin merki málþófs í kringum þessi mál og engar blikur á lofti, eins og Vigdís Hauksdóttir sagði á sinni facebook-síðu áðan, um að við stöndum í vegi fyrir því að þessi mál fari í gegn. Það eru hvorki neinir tilburðir til þess né vilji hjá stjórnarandstöðunni til að gera það.

Þetta er eitt af stóru málum ríkisstjórnarinnar sem hún lofaði í aðdraganda kosninga og hún stendur og fellur með þeim aðgerðum. Það er bara þannig. Ef maður getur lagað hlutina eitthvað, ef fólk hefur tekið eftir hnökrum, þá er þetta einmitt vettvangurinn til að miðla slíkum upplýsingum á nefndasviði og hér í pontu. Mér finnst að við verðum að horfast í augu við að umræður í þingsal og nefndastarfi ganga út á að skiptast á skoðunum enda hafa oft komið mjög þarfar og góðar ábendingar þegar þingmenn fjalla um málin, og ekki síður þegar við fáum álit utan úr samfélaginu á þeim verkefnum, frumvörpum og ályktunum, sem við höfum hér til umfjöllunar.

Ég vona svo sannarlega að þetta frumvarp verði gæfuspor. Ég er ekki alveg búin að gera upp við mig hvar á vogarskálinni þetta er. Ég held að þetta muni gera mörgum mjög gott en hefði viljað að allir hefðu fengið að njóta góðs af þessari leið. Ég vil líka segja að áður en ég fór á þing þá hafði ég alls ekkert efni á séreignarsparnaði og ég veit að margir eru í þeirri stöðu.