143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta eru vangaveltur sem hlutu að koma upp og einnig þá um önnur sparnaðarform, hvort þau séu jafn sett, sem þau eru væntanlega ekki vegna skattleysisákvæðanna í þessu sparnaðarformi sérstaklega.

Annað mál sem ég vildi nefna líka, af því að þingmaðurinn fór ágætlega yfir áhrifin á sveitarfélögin og rakti í máli sínu umsögn Reykjavíkurborgar og umsögn liggur líka fyrir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem að hluta til byggir á umsögn Reykjavíkurborgar. Mig langar til að inna hv. þingmann eftir því, af því að í umsögn sveitarfélaganna og Reykjavíkurborgar sérstaklega er farið yfir áhrifin sem frumvarpið hefur, bæði vegna þess að gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög gefi eftir tekjuskatt og útsvar á bilinu 60–82 milljarða á verðlagi ársins 2014 og hins vegar er gert ráð fyrir að útgjöld borgarinnar og þar með sveitarfélaganna aukist vegna mótframlaga til starfsmanna sem hefji séreignarsparnað, aðgerðanna sem lýst er í frumvarpinu.

Getur þingmaðurinn ekki tekið undir þau viðhorf sem meðal annars hafa komið fram í umræðunni hjá öðrum og að hluta til í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að það að gefa eftir framtíðarskatttekjur með þeim hætti sem hér er gert geti varla leitt til annars en að annaðhvort verði að hækka skatta í framtíðinni á komandi kynslóðir, auka þjónustugjöld fyrir samfélagslega grunnþjónustu eða draga úr þjónustu, nú eða auka lántöku? Getur þingmaðurinn ekki tekið undir það að þetta séu fyrirsjáanlegar (Forseti hringir.) afleiðingar þeirra leiða sem hér eru lagðar til?