143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vek enn athygli á fjarveru ráðherra sem er fullkomin og altæk og hefur verið hér á bekkjunum. Við höfum ekki séð slíkt eintak í þessari umræðu, nánast frá því að hún hófst þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

Ég vil líka gera þá játningu svo að ekkert fari á milli mála að ég er að flytja mína þriðju ræðu í þessari umræðu, sökum þess að mér entist ekki tíminn síðast til að fara yfir það sem ég ætlaði að fara yfir, og geri það nokkuð brattur þrátt fyrir siðgæðisvörðinn Vigdísi Hauksdóttur, hv. þingmann, sem hefur haft uppi stór orð um það að menn ræði þetta stóra mál. Það er ekki svo komið enn þá, herra forseti, að sá sem hér stendur hyggist bera það sérstaklega undir Vigdísi Hauksdóttur hvort sé við hæfi að hann tali.

Ég ætla að ræða aðeins um það sem ég hugðist gera áður, sem sagt sparnað og lífeyrissjóði, sem hefur borið hér dálítið á góma og tengist að sjálfsögðu þessum málum. Ég vil taka það fram fyrir mitt leyti að að sjálfsögðu er mikilvægt að við greiðum götu þess að við gerum fólki kleift að geta tryggilega sparað og lagt fyrir fé. En það skiptir máli hvernig sá sparnaður er hugsaður og í hvaða skyni hann er, sérstaklega þegar við förum að koma að hinu skattalega umhverfi þess og hvort við beitum skattalegum hvötum til að stuðla að slíku.

Ég vil gera skýran greinarmun annars vegar á sparnaðarmöguleikum yngra fólks sem vill með tryggum hætti geta lagt til hliðar til að standa straum af framtíðarhúsnæðiskostnaði sínum, hvort sem það verður til eigin íbúðarkaupa eða búseturéttarkaupa eða þess vegna að það gæti myndað slíkan sparnað til að gera sér lífið léttara á leigumarkaði á fyrstu árum eftir til dæmis að námi lýkur eða annað því um líkt, og hins vegar því sem er auðvitað almennt æskilegt, að sparnaður sé í samfélaginu og sem flestir sem það vilja og geta geti lagt til hliðar í varasjóð ef á þarf að halda eða til efri áranna. Að sjálfsögðu er engin deila um að það er æskilegt, það er enginn ágreiningur sem tengist þessu máli þar um. Og eins og menn hafa stundum sagt í gamni að það sé nú lágmark að menn eigi fyrir útförinni þegar þar að kemur. Það er eiginlega það minnsta. Menn taka svo sem ekkert með sér yfir það best er vitað þannig að kannski er það nóg í sjálfu sér ef þeir hafa lifað góðu lífi fram að því.

Þá er spurningin hvort menn eru ekki að blanda hér saman hlutum sem eiga alls ekkert að fara saman, þ.e. hvort við viljum stuðla að einhverjum almennum húsnæðissparnaðarmöguleikum til að létta mönnum þá stærstu fjárfestingu sem yfirleitt er á lífsleiðinni, húsnæðisöflunin, íbúðarkaupin, eða þá hitt sem við sjáum núna á reynslunni að getur verið erfitt sem er einfaldlega að fara út á leigumarkaðinn og þurfa að vera á honum kannski einhver ár áður en menn geta sjálfir ráðist í húsnæðiskaup.

Gallinn við það að leggja eingöngu áherslu á sparnað til að mynda eign til að kaupa eigið húsnæði er að þá eru stórir hópar útilokaðir, þeir sem vilja frekar og velja sér það að búa í öðru búsetuformi, telja að sér henti betur miðað við tekjur sínar að reyna til dæmis að búa bara í tryggu leiguhúsnæði.

Auðvitað væru og eru skattalegir hvatar sem á að nota, ég tala nú ekki um í óhófi í þessu skyni, að ýta undir séreignarstefnu, að sjálfsögðu. Halda menn að það sé tilviljun að það var áhersla Sjálfstæðisflokksins að beita ætti skattfrelsi í séreignarsparnaði til að hjálpa mönnum að greiða niður húsnæðislán eða mynda sparnað til íbúðarkaupa? Það er skilgetið afkvæmi séreignarstefnunnar. Hún er hér að fá forgang fram yfir önnur íbúðaform þrátt fyrir hjal samtímis og til hliðar í ónefndum aðilum um að þeir vilji stuðla að heilbrigðum leigumarkaði.

Ýmsir hafa í umræðunni lokið lofsorði á þetta, að það sé alveg eins gott og jafnvel betra að í stað þess að byggja upp séreignarsparnað til efri ára þá myndi menn eign í húsnæðinu með hraðari niðurgreiðslu skulda.

En er það endilega svo? Það eru ýmsar hliðar á því máli. Það kostar að eiga húsnæði, það er líka ótryggt að reyna að mynda eign í húsnæði eins og Íslendingar ættu að vera farnir að læra. Okkur má þá ganga betur á komandi árum, að hafa hér stöðugleika í verðlagi og efnahagsmálum ef það á ekki líka að vera áhættusamt að treysta á að menn eigi sparnaðinn til efri áranna geymdan í skuldlausri eign í húsnæðinu. Margir hafa farið flatt á því. Það eru ólíkar aðstæður í landinu eftir því hvar menn búa, það er ekki alls staðar 101 Reykjavík, herra forseti.