143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við munum bæði þá tíð, þó að ég sé bara rétt komin á miðjan aldur og þingmaðurinn þó nokkuð ungur, þó að hann sé eldri en ég, þegar helsti lífeyrissjóður fólks var steinsteypa. Svo var nú komið hér á almennum lögbundnum lífeyrissjóði til þess að breyta þessu þannig að fólk ætti öruggari lífeyri í ellinni eða á eftirlaunaaldri, og síðan var séreignarsparnaðarkerfinu bætt við til að auka sparnað og auka ráðstöfunartekjur fólks eftir að eftirlaunaaldur hæfist, enda erum við að eldast — sem er jákvætt — og erum hraustari, þannig að við viljum hafa meira á milli handanna þegar við hættum að vinna.

Nú er hér í þessu frumvarpi verið að leggja drög að nýju húsnæðissparnaðarkerfi, því að önnur nefnd er búin að skila tillögum um að haldið verði áfram með þetta kerfi, og það felur í sér að fólk verði fyrri hluta starfsævinnar að nýta viðbótarsparnaðinn til að kaupa sér steinsteypu. En viðbótarlífeyrissparnaðurinn er verðmætari eftir því sem hann er lengur að ávaxtast og því eru krónurnar sem þú aflar þér snemma á starfsævinni verðmætari en þær sem þú aflar þér eftir miðjan aldur eða á þeim aldri sem ég og hv. þingmaður erum til dæmis á í dag.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann telji heppilegt, ef á að koma á húsnæðissparnaðarkerfi, að blanda slíku kerfi saman við viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið.