143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:08]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir efnismikla, góða og málefnalega ræðu. Það eru margar spurningar sem vakna. Ein spurning sem ég vil bera undir hv. þingmann er varðandi ráðstöfun séreignarsparnaðarins. Það er núna vandi, mætti segja, hjá lífeyrissjóðunum að þeir þurfa á hverju ári að fjárfesta fyrir 100–120 milljarða innan hafta. Það er orðið mjög erfitt að finna góðar fjárfestingar án þess að það leiði til eignabólu, að kaupa alltaf sömu eignirnar og þær hækka og hækka í verði þótt það sé ekki raunveruleg virðisaukning. Það er hætta sem er á ferðum.

Eitt af því sem mér fannst mjög klókt við þá aðgerð sem við erum að ræða er að á hverju ári næstu þrjú árin eru það allt að 30 milljarðar sem renna ekki inn í lífeyrissjóðina. Þeir verða því með 30 milljörðum minna vandamál til ávöxtunar en hins vegar er alveg örugg ávöxtun í því að greiða upp skuldir heimilanna. Það er algerlega örugg ávöxtun og það besta sem við getum gert í þessari stöðu, miklu skynsamlegri ráðstöfun mundi ég segja. Ég ætla einmitt að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki fallist á að þetta sé eins og aðstæðurnar eru núna skynsamleg ráðstöfun.