143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði það einmitt í ræðu minni að í grunninn teldi ég þetta ágæta hugmynd og ágæta tillögu og það er útfærslan, vinnan að baki og upplýsingarnar sem ég hef verið að setja út á. Mér finnst óþægilegt að skrifa upp á óútfylltan tékka um það hvað þetta gæti kostað inn í framtíðina og hvaða áhrif þetta gæti haft til dæmis á Íbúðalánasjóð. Það er það sem mér finnst óþægilegt.

Mér finnst líka vont við þetta, af því að þetta er hluti af stærra samhengi, þetta er í raun hluti af skuldaniðurfellingum sem við munum ræða á eftir og í kvöld, þeir stóru hópar sem menn skilja eftir. Það angrar mig líka, þannig að það sé sagt. Förum þá að umhverfinu sem hv. þingmaður nefnir. Það er rétt að innan hafta erum við í mjög miklum vandræðum hvað varðar fjárfestingar á fjármunum sem hafa safnast víða á undanförnum árum. Lífeyrissjóðirnir eru þar engin undantekning og við þurftum aldeilis að eiga við það í minni tíð í Stjórnarráðinu og þetta er vont. Þess vegna tel ég að það skipti svo miklu máli. Ef hv. þingmaður nálgast málið svona þá er hann að tala um að nú séum við á einhvern hátt að aðlaga okkur að sjúkdómnum, sem heitir gjaldeyrishöft. Við eigum að mínu mati að setja miklu meiri kraft í að ná pólitískri samstöðu um að afnema þessi höft. Það er stóra verkefnið okkar að mínu mati. Þá horfðum við ekki upp á þetta vandamál hjá lífeyrissjóðunum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann til baka, því að hann er formaður nefndarinnar og ég veit að hann gjörþekkir málið og ég sit ekki í nefndinni: Af hverju gátu menn ekki fundið betri upplýsingar um áhrifin á stöðu Íbúðalánasjóðs, þ.e. þann kostnað sem ríkið mun bera vegna Íbúðalánasjóðs? Mér finnst það einn óþægilegasti parturinn. Sömuleiðis langar mig að spyrja hv. þingmann hvers vegna menn gátu ekki metið kostnaðinn við þetta betur en raun ber vitni.