143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

gæsir og álftir.

463. mál
[11:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér spyr ég um hvernig eða hvort ráðherra hyggist bregðast við þeim vanda sem hlotist hefur af ágangi gæsa og álfta á ræktað land. Það mætti segja mér að hér væri um að ræða nokkuð viðvarandi áhyggjur bænda af ágangi þessara fuglategunda á ræktað land. Það mætti segja mér að það væri nokkuð árvisst að Bændasamtökin ályktuðu um þennan vanda og jafnframt nokkuð árvisst að þeim áhyggjum sé komið á framfæri við umhverfisráðherra eða landbúnaðarráðherra hvers tíma.

Staða þessara fuglategunda er nokkuð skýr samkvæmt lögum þó að hún sé ekki með sama hætti, vernd álfta er miklum mun skýrari en þegar gæsirnar eru annars vegar. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að það hefur ekki komið fram í umræðu áður eða ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, hvort ráðherrann hafi áform uppi um að breyta laga- eða regluumhverfi að því er þetta varðar, þ.e. til að koma til móts við kröfur bænda um að heimilt verði að veiða þessa fugla.

Auðvitað væri þar um að ræða veruleg þáttaskil í stöðu villtra fugla á Íslandi og þar með náttúruverndarsjónarmiða og þeirra sjónarmiða sem varða stöðu villtra fugla og dýra á landinu. Ráðherrann hefur stundum talað fyrir því sem hann kallar oftar en ekki skynsemi, en ég mundi kannski á góðum degi segja að hann talaði frekar fyrir nýtingu en vernd, en í ljósi þess að hér er allt í miklum friði og spekt kalla ég fyrst og fremst eftir þeim sjónarmiðum sem hæstv. ráðherra kann að hafa í þessu efni. Hér er um að ræða svo sígilt umræðuefni í samskiptum umhverfisyfirvalda eða náttúruverndaryfirvalda á hverjum tíma og bænda og Bændasamtakanna að jaðrar við umræðuna um ref, þó að ég hyggist ekki taka upp þá umræðu akkúrat í þessari umferð. Ég sakna þess eiginlega að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ræði við núverandi umhverfisráðherra um ref og mink eins og hann gerði við þá sem hér stendur, held ég bara á hverju einasta þingi á síðasta kjörtímabili.