143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

gæsir og álftir.

463. mál
[11:26]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að koma inn í þessa umræðu og fagna fyrirspurn hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og ekki síður þeim svörum sem hæstv. umhverfisráðherra flutti hér. Ég tek undir það sem sagt var áðan, þetta er árvisst umræðuefni en ég vil ramma það sérstaklega inn að þetta er ekki vandamál sem er ástæða til að sproksetja, við eigum að taka það mjög alvarlega. Stórfjölgun þessara fugla veldur bændum gríðarlegu fjárhagstjóni. Það getur ekki verið ætlun okkar að horfa fram hjá því ár eftir að bregðast við því á einhvern hátt.

Því vil ég bæði fagna og hvetja ráðherrann áfram í þeim efnum því að til eru margvíslegar leiðir til úrbóta. Mér er kunnugt um að hann hafi hafið samstarf þvert á lönd og fundað hafi verið sérstaklega um þetta mál í síðustu viku. Það má engar leiðir útiloka fyrir fram í þessu máli, hvort sem þær eru veiðar eða aðrar aðgerðir.