143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

landsskipulagsstefna.

464. mál
[11:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Með skipulagslögum, nr. 123/2010, voru í fyrsta skipti sett ákvæði um landsskipulagsstefnu hér á landi og raunar í ágætri þverpólitískri sátt í þinginu. Samkvæmt þeim lögum leggur umhverfisráðherra fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um landsskipulagsstefnu til tólf ára innan tveggja ára frá alþingiskosningum. Þannig er það samkvæmt lögunum.

Markmið stefnunnar er að setja fram leiðarljós um nýtingu lands og landgæða sem hefur það að markmiði að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana, stuðla að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð. Stefnunni er líka ætlað að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um landnotkun og nýtingu lands, sem er óendanlega mikilvægt. Ég veit að við hæstv. ráðherra deilum þeirri sýn að það er afar mikilvægt að ná einhverri heildarstefnumörkun í þessum efnum. Þá er ég bæði að tala um vernd og ekki síður nýtingu lands og landgæða.

Með þessari stefnu erum við loksins komin með mikilvæga brú milli áætlana á landsvísu, sem eru gríðarlega margslungnar, það eru margar áætlanir til á landsvísu, og síðan skipulagsáætlana sveitarfélaganna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra vegna þeirrar lagaskyldu sem hér liggur fyrir og ekki síður vegna þeirrar reynslu sem sú sem hér stendur býr sjálf yfir, þ.e. hversu flókin vinna af þessu tagi er og hversu mörg sjónarmið þarf að leiða að borðinu þegar við tölum ekki bara um einstök mál sem geta komið upp þegar um er að ræða núning milli ríkis og sveitarfélaga varðandi landnýtingu og landnotkun, eins og við þekkjum bæði sem eigum bakgrunn í sveitarstjórnarmálum. Vinna af þessu tagi tekur gríðarlega langan tíma. Hér er í raun lagaáskilnaður sem gerir ráð fyrir því að hæstv. ráðherra leggi fram þingsályktunartillögu til landsskipulagsstefnu til tólf ára innan árs frá þessu vori.

Vegna þess hversu flókin vinna þetta er þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari þingsályktunartillögu? Hvernig er staðan varðandi það samráð sem nauðsynlegt er til þess að koma slíkri tillögu fram? Að hvaða leyti hefur hæstv. ráðherra getað nýtt sér þá vinnu sem þegar lá fyrir, þ.e. þau drög eða þá stefnu sem lögð var fram til kynningar fyrir áramótin 2012? Hver eru næstu skref og framtíðarsýn hæstv. ráðherra?