143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

upplýsingar um skuldabréf Landsbankans.

[11:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram með þetta skuldabréf Landsbankans. Mig langaði í fyrsta lagi að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á því að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar séum ekki upplýst um þetta mál á sambærilegan máta og við kröfðum fyrrverandi ríkisstjórn um til að fá upplýsingar um Icesave. Nú tvinnast þetta inn í Icesave. Þetta er mjög flókið og mér finnst ég ekki nægilega upplýst um málið. Mér þætti til dæmis gaman að fá að vita hvort búið sé að reikna út afleiðingarnar ef þessi framlenging á samningi verður að veruleika — eða ekki. Er búið að reikna út hvað gerist ef framlengingin verður að veruleika? Hvað munu vextirnir kosta þjóðarbúið? Og hvað gerist ef framlengingin verður ekki að veruleika?

Ég óska eftir upplýsingum. Ég ræddi þetta á fundi þar sem við vorum að ræða um þinglok og vildi fá einhverjar upplýsingar. Þá var mér sagt að ég gæti spurt ráðherrann um þessi mál í einhverjum smáskeytastíl af því að þetta fundarform býður ekki upp á ítarlegar upplýsingar um stöðu á jafn flóknu og afdrifaríku máli. Það skiptir mjög miklu máli að við séum meðvituð um nákvæmlega hvað er að gerast. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að hafa skilning á því að við sem eigum að tryggja að við séum bæði upplýst og tökum upplýstar ákvarðanir óskum eftir frekari samráði og upplýsingum um málið áður en lengra verður haldið.