143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:39]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef alloft reynt að útskýra fyrir hv. þingmanni er þetta ekki aðgerð sem kemur til móts við alla frekar en nokkur önnur aðgerð, hún er til þess hönnuð að koma til móts við hóp sem hefur verið vanræktur. Það þýðir ekki að í því felist yfirlýsing um að menn ætli að vanrækja alla aðra. Með tillögum sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur kynnt, þar sem í rauninni er verið að undirbúa nýtt húsnæðislánakerfi, er sérstaklega hugað að því að koma til móts við leigjendur og þá sem keypt hafa búseturétt. Þó að þessi aðgerð miði að því að koma til móts við tiltekinn hóp sem litið hefur verið fram hjá í fimm ár, hóp sem á réttmæta kröfu, hóp sem fær ekki ölmusu eða styrki, þá þýðir það ekki að menn ætli sjálfkrafa að skilja allra aðra hópa eftir, raunar þvert á móti, á sama tíma er verið að vinna að því að koma til móts við aðra hópa líka.