143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

dagskrá fundarins.

[15:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði. Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum að forseti skuli ekki eiga samráð við stjórnarandstöðuna um dagskrá fundarins.

Ég sé ekki betur en að það sé mjög skýrt í 86. gr. þingskapalaga að skipulag þingstarfanna eigi að vera með þeim hætti að um það sé haft samráð við þingflokksformenn. En að boða til fundar á algjörlega óvenjulegum tíma án þess að haldinn sé fundur í forsætisnefnd og án þess að haldinn sé fundur með þingflokksformönnum — klukkan er þrjú núna, við hefðum getað haft tíma til að funda hér í dag. Ég átta mig ekki á hvað forseta gengur til að koma fram með þessum hætti við þingið. Ég hefði haldið að forseta væri í lófa lagið að halda því til haga að þingið héldi reisn í gegnum þennan vandræðagang hér, en það virðist vera allt annað á dagskrá. Verra er að sjá forsætisráðherra glotta undir þessum athugasemdum.