144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlög og fjárlög eru spá. Síðan koma fjáraukalög sem eiga að taka á því sem er óvænt og ekki var fyrirséð, eldgos og annað slíkt, eða aukavinningar eins og hefur komið í ljós fyrir árið 2014. Að lokum kemur ríkisreikningur og lokafjárlög sem loka dæminu. Ég hef þá trú að það sé verulega mikilvægt að þau lokafjárlög séu með afgangi, þ.e. að ríkissjóður sé ekki að prenta peninga sem veldur verðbólgu. Það að verðbólga skuli núna hafa verið 2,5% eða undir 2,5% í heila sjö mánuði, algjörlega óþekkt, er náttúrlega mjög ánægjulegt. Ég held að það sé vegna þess að ríkissjóður er rekinn með raunverulegum afgangi, ekki bara einhverju plati. Þannig að ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu.

Það er fleira sem ég er ánægður með. Hagvexti er spáð 3,4%, mjög gott. Atvinnuleysi er 3,3%, enn þá betra. Ef einhver hefði sagt mér fyrir nokkrum árum að þetta væri í spánni eða spáð því að verðbólgan yrði svona lág og atvinnuleysi svona lítið hefði ég varla trúað því, en þetta er mjög ánægjulegt. Það sem er slæmt við hagvöxtinn er að hann er neysludrifinn og það er ekki gott.

Umræðan í dag og í gærkvöldi er nánast þannig að ég hefði getað haldið allar ræðurnar sjálfur, bara sagt: „Nú er ég í stjórnarandstöðu, þá segi ég þetta og nú er ég í stjórnarliðinu og þá segi ég hitt“. Þetta er dálítið leiðinlegt. Auðvitað eru menn að reyna sitt besta og síðasta ríkisstjórn gerði mjög margt gott. Hún fór út í nauðsynlegan niðurskurð sem var mjög sársaukafullur, og hún fór líka í skattahækkanir, fór kannski offari í þeim efnum því það er ekki hægt að skattleggja heimili og fyrirtæki sem eru löskuð. Hún gerði mjög margt gott. Hún gerði líka margt slæmt en ég ætla ekkert að fara yfir það. Við þurfum dálítið að horfa til þess hvað við erum að gera og af hverju við erum að gera það.

Ég held að þetta sé gott frumvarp. Reyndar er inni í því skuldaniðurgreiðslan, ég ætla ekki að tala neitt um hana, ég er á móti henni. Ég er búinn að koma þeim sjónarmiðum á framfæri.

Að fella niður vörugjöld, það er bara yndislegt, yndislegt því hvernig þau skekkja alla neyslu og allan samanburð á milli vöruflokka er bara fáránlegt. Ég er mjög ánægður með það og gleðst yfir því. Svo á að minnka muninn á milli þrepanna og það minnkar möguleikann á undanskotum því undanskotin eru því miður allt of mikil. (Gripið fram í: Rétt.) Það er meiri hvati að svíkja undan virðisaukaskatti sem er 25,5% heldur en 24%. Þó það muni ekkert voðalega miklu þá er að minnsta kosti minni hvati til að svindla.

Menn hafa hér rætt mikið um matarskattinn. Dálítið athyglisverð umræða. Því er haldið fram að matarskatturinn bitni illilega á lágtekjufólki. Því er haldið fram. Hvar er könnun á því? Ég las neyslukönnun Hagstofunnar um daginn þar sem þjóðinni var skipt í fjóra hópa, dálítið gróf skipting, en engu að síðu kemur í ljós að í útgjöldum þessara fjögurra hópa er maturinn 15%, nokkurn veginn hjá þeim öllum, plús mínus núll komma einhver prósent. Þannig að 15% af útgjöldum er matur.

Bíðum nú við, herra forseti. Hvað er þá restin, 85%, í hvað fer það? Í hvað skyldi það fara? Hjá hátekjufólkinu fer sá hluti sennilega dálítið í sparnað þannig að það eyðir minna en 85% í vörur sem eru í hærra þrepinu. Hjá lágtekjufólkinu fer það örugglega lítið í sparnað, þannig að þar er sennilega stærri hluti í hærra skattþrepinu, virðisaukaskatti. Ég hugsa að ef menn reikni þetta út sjáist þetta og ég mun óska eftir því í nefndinni sem ég sit í og fær þann hlutann til okkar, skattalögin, að þetta verði brotið niður. Þannig að ég er ekkert viss um að þessi fullyrðing sé rétt. Ég hef að minnsta kosti ekki komið á heimili enn þá þar sem ekki er farsími, ekki er þvottavél, ekki þurrkari, ekki eldavél og ekki bakarofn. Allt er þetta í hærra þrepinu.

Ég tek undir það sem margir hafa bent á að það á ekki að spara við skattrannsóknir. Þar eigum við að setja á fullt. Svo hef ég líka bent á það mörgum sinnum að við stöndum frammi fyrir elliskriðu. Við þurfum að taka á því sem þjóð. Það er ekkert vandamál, en það er vandi. Það er eitthvað sem við þurfum að leysa og við munum leysa.

Síðan vil ég benda á það að skuldir ríkissjóðs eru 1.500 milljarðar. Þessar skuldir eru í ýmsum myntum. Allar þessar myntir eru með verðbólgu. Við skulum gefa okkur að hún sé 1%. Það gerir 15 milljarða raunlækkun á skuldunum þegar ríkissjóður er með núlli.