144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

Stjórnarráð Íslands.

[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nokkur orð í lok umræðunnar. Í fyrsta lagi geta þeir sem sátu í síðustu ríkisstjórn talað sig hása um stjórnfestu en þeir sátu ekki í ríkisstjórn sem þekkt verður fyrir stjórnfestu, svo mikið er víst.

Þær miklu breytingar sem urðu á síðasta kjörtímabili hafa til dæmis orðið formanni Lögmannafélagsins og formanni Dómarafélagsins tilefni til greinaskrifa um það að málaflokkar eins og dómsmálin hafi orðið út undan í áherslum í þeim breytingum sem voru gerðar á síðasta kjörtímabili. Um þetta má lesa í blaðagrein sem var rituð um efnið. Það var sérstaklega tekið fram að það væri ekki við starfsmenn þeirrar skrifstofu að sakast sem fer með málaflokkinn en þar var bryddað upp á því hvort ekki væri ástæða til að endurvekja dómsmálaráðuneytið.

Ég vil líka segja hér vegna þess sem sagt hefur verið um heiðursafsagnir að þar er greinilega mun auðveldara um að ræða en í að komast. Og skyldi engan undra. Það hafa allir metnað til að skila vel af sér, eins og hefur verið komið inn á hér, þeim embættum sem þeir hafa tekið að sér að gegna. En við höfum svo sem alveg dæmin á undanförnum árum um að maður hafi velt því fyrir sér hvort ekki væri tilefni til afsagnar. Ef menn lenda til dæmis upp á kant við 98% þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu (Gripið fram í: Rétt.) veltir maður fyrir sér hvort það gæti verið komið upp tilefni til heiðursafsagnar. Það varð ekki.

Aðalatriði málsins er að af þessari umræðu hér í dag mætti ætla að stjórnarandstaðan eða yfir höfuð þingið hefði engin tæki, engin úrræði til að knýja fram afsögn ráðherra ef ástæða þætti til. En við vitum það sem erum hér samankomin að það tæki er til, það er hægt að lýsa yfir vantrausti á ráðherra ef menn telja að hann hafi ýmist brotið af sér eða njóti ekki lengur trausts til að gegna embættinu. Það hefur enginn tekið það tæki af neinum (Forseti hringir.) sem hér er inni eða hefur tekið til máls í dag.