144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:39]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að taka þessa þörfu umræðu upp og hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin og þeim sem hafa talað. Við tölum aldrei of oft um örugg fjarskipti á Íslandi og sá atburður sem kom upp fyrir vestan um daginn minnir okkur á það hversu gríðarlega mikilvægt er að hafa góð fjarskipti. Og talandi um Vestfirði þá er á sunnanverðum Vestfjörðum vegasamband eins og í fornöld, þannig að það er víða pottur brotinn.

Við landsbyggðarþingmenn þekkjum það öll hversu gífurlega mikilvæg góð fjarskipti eru. Það brennur á fólki. Bara í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, er þetta eiginlega alltaf fyrsta atriði sem er nefnt þegar við hittum sveitarstjórnarfólk vegna þess að þetta er svo gríðarlega mikilvægt upp á atvinnu og öryggi íbúanna. Það vita allir að góðir samskiptainnviðir eru lykilatriði fyrir Ísland í framtíðinni í öllu sem lýtur að velferð, lífsgæðum og atvinnuuppbyggingu. Það er lífsnauðsynlegt að hafa öruggan aðgang að samskiptum í fjarskiptamálum.

Það hefur verið lögð fram fjarskiptaáætlun og mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hvernig er staða fjarskiptaáætlunar 2011–2014 sem lögð var fram? Hvernig er hún? Ég hef lesið aðeins yfir hana og þingsályktunin er mjög metnaðarfull með fjögur markmið. Ef þeim hefði öllum verið náð — því að nú er 2014 — þá er ekki víst að þessi staða hefði komið upp og væri að koma upp á landinu. En ég hvet alla til góðra verka. Þetta er náttúrlega alltaf spurning um forgangsröðun á fjárveitingum. Þetta kostar peninga og þetta er bara spurning um hvernig við viljum forgangsraða.