144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að opna hér mál sem fjallað var um í Fréttablaðinu í morgun. Þar kemur fram að stærstur hluti félagsmanna í Starfsmannafélagi ríkisins fær greiddar aukagreiðslur umfram grunnlaun og hjá félaginu er þetta hlutfall 83%. Auðvitað þarf ekki að spyrja að því að karlar fá frekar aukagreiðslur en konur. Hjá starfsmannafélaginu er þessi munur 93,5% karla á móti 78,7% kvenna.

Hér er vísað í fréttinni í Árna Stefán Jónsson, formann Starfsmannafélags ríkisins, en hann segir að þessi þáttur hafi fylgt ríkisstarfsmönnum lengi og stjórnendur ríkisstofnana búi til óunna yfirvinnu eða aðrar sporslur til þess að fela laun gagnvart öðrum eða til þess að fela laun gagnvart ráðuneytinu. Hann segir síðan, með leyfi forseta:

„Þetta er alveg ótrúlegur leikur í kringum þetta og hann er alltaf að aukast aftur og aftur.“

Virðulegi forseti. Þetta eru stór orð frá formanni Starfsmannafélags ríkisins. Þarna er greinilega pottur brotinn. Þarna er beinlínis verið að blekkja varðandi það hversu háar launagreiðslur ríkisins eru og þegar þetta er sett fram með þessum hætti er þetta virkilega sláandi.

Hér er hæstv. ríkisstjórn að reyna að reka ríkið eins og best verður á kosið, gerir miklar aðhaldskröfur og þurfti að fara í niðurskurð og gera aðhaldskröfur nú í fjárlögum 2015. Þá koma þessar upplýsingar fram um að beinlínis sé verið að villa um fyrir ráðuneytunum. Virðulegi forseti. Hvernig á að vera hægt að reka ríkið þegar svona blekkingarleikur er í gangi gagnvart því sjálfu?