144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að gera að umtalsefni stöðu verslunarinnar í landinu. Um verslunina í landinu hefur oft og tíðum í gegnum árin og áratugina verið talað sem einhvers konar aukreitis, jafnvel óþarfa, ekki í tengslum við alvöruatvinnulíf. Þess vegna hafa menn verið með allra handa skatta og gjöld, ofurskatta, og nú síðast vörugjöld.

Niðurstaðan hefur verið sú að við erum í raun með tvær þjóðir hér í landinu, það er þjóðin sem getur keypt án þessara gjalda, hún gerir það í útlöndum eða á ákveðnum stað á Íslandi sem er Fríhöfnin. Í Fríhöfninni geta menn keypt hluti eins og áfengi, snyrtivörur, sælgæti, tóbak, leikföng, ferðavörur, heilsuvörur, Dutyfree Fashion, annan fatnað og Victoria's Secret, virðulegi forseti, ef marka má heimasíðu Duty Free á Íslandi. Og þetta er fyrir þá sem hafa ráð á því að fara til útlanda. Hinir mega borga allt önnur gjöld og gjalda þessar vörur allt öðru verði.

Loksins kemur hér fram fjárlagafrumvarp sem hreinsar út þessa gömlu ofurtolla. Hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin má hafa þakkir fyrir það. Þetta gerir ekkert annað en að jafna stöðu fólks í landinu, sérstaklega er þetta gott fyrir þá tekjulægri sem ekki hafa efni á því að fara til útlanda eins og hinir sem eru tekjuhærri. Maður mundi ætla að samtök fólks sem vinnur við verslunina mundu fagna þessu vegna þess að þetta styrkir stöðu íslenskrar verslunar, styrkir samkeppnisstöðu hennar og bætir þar af leiðandi hag þess starfsfólks. En, nei, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) VR, langstærsta verslunarmannafélagið, var ekki aldeilis á því heldur þvert á móti. (Forseti hringir.) Og er það ein furðulegasta fréttin sem verið hefur í fjölmiðlum að undanförnu.