144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil byrja á því að spyrja. Ég hlustaði á ræðuna og áhrifin voru þau að þetta væru ægilegar skattahækkanir. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort 2.500 eða 2.700 millj. kr. tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga sé ekki hagnaður fyrir einhvern annan, þ.e. heimilin, sem borga þennan skatt, hvort þetta sé ekki í heildina skattalækkun. Það er fyrsta spurning mín.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi komið inn á heimili þar sem ekki er þvottavél, eldavél, ísskápur og jafnvel uppþvottavél. Fátækustu heimilin hafa kannski ekki uppþvottavél. En ég vil spyrja hann: Hefur hann komið inn á heimili sem er með þvílík tæki? Gerir hann sér grein fyrir því að þau lækka sum hver um 17–20%, það verður lækkunin á þessum heimilistækjum. Þá segir hv. þingmaður: Ja, þau kaupa þetta notað á bland.is eitthvað svoleiðis. En málið er það að um leið og verð lækkar á nýjum tækjum þá lækkar líka verðið á bland.is. Þannig að þessi lækkun á að koma sér vel fyrir alla.

Síðan er það spurningin um ferðaþjónustuna sem hv. þingmaður kom inn á, gistiþjónustuna, sem komið hafði verið fram með tillögur um að hækka upp í 14%. Hann gleymdi að geta þess að það var nýtt þrep og nýtt þrep í virðisaukaskattinum er eitur í beinum margra, þar á meðal mín, vegna þess að það býður upp á enn meiri möguleika á því að hliðra til. Þegar ferðaþjónustufyrirtæki er að selja pakka, gistingu, mat, ferðir o.s.frv. í einum pakka, hvað skyldi það verðleggja matinn á mikið? Ég giska á þau verðleggi hann á 730 kr. en gistinguna þeim mun hærri af því hún er í lægra þrepi.