144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þegar ég sá þetta frumvarp verð ég að segja að það gekk framar björtustu vonum mínum. Ég vil hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir hugrekkið að fara upp í 12% í staðinn fyrir að fara upp í 11% eða eitthvað þaðan af lægra og fara niður í 24%. Það finnst mér vera mesta hugrekkið.

Það er svo merkilegt hérna að öll umræðan hefur snúist um seinni málslið c-liðar 1. gr., þ.e. í stað hlutfallstölunnar 7% í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur 12%. Öll umræðan hefur meira eða minna snúist um það. Stjórnarandstaðan sér ekkert annað. Hún gleymir öllum hinum ákvæðum laganna sem fela í fyrsta lagi í sér stórkostlegar skattalækkanir, niðurfellingu á heilum lagabálki um vörugjöld — framar öllum vonum, herra forseti — og hækkun á barnabótum fyrir þann hóp sem maður getur séð fyrir sér að lendi verst í þessu, þ.e. fólk sem er með lágar tekjur og mörg börn.

Af hverju eru menn að þessu? Það er vegna þess dæmis sem ég nefndi áðan þar sem ferðaskrifstofa getur með gjörsamlega löglegum hætti selt pakkaferð þar sem hundasleðaferð er metin á 100 þús. kr., gisting er metin á 10 þús. kr. og matur á 750 kr., bæði kvöldmatur og hádegismatur, sem ber 25,5% virðisaukaskatt; hundasleðaferðin ber engan virðisaukaskatt, af því það er flutningur, og gistingin ber 7%. Þetta er algjörlega löglegt og ekkert við þessu að segja.

Einhver getur komið og sagt: Heyrðu, maturinn hjá þér er ótrúlega ódýr. — Já, það er svo ótrúlegt hvað mér tekst að koma þessu niður, alveg með ólíkindum.

Hundasleðaferðin er dálítið dýr. — Já, þeir eru verðmætir þessir hundar o.s.frv.

Hver ætlar að segja hvað er rétt verð í þessu? Ég geti ekki vitað það. Með þessum hætti fara menn fram hjá virðisaukaskattinum, borga miklu minni virðisaukaskatt en ef hundasleðaferðin kostaði kannski ekki nema 30 þús. kr., maturinn kostaði 6 þús. kr. hvort skiptið og gistingin 15–20 þúsund, þá yrði virðisaukaskatturinn miklu hærri. Það er akkúrat þetta sem segir hvað er mikilvægt að hafa kerfið einfalt og undanþágulaust.

Við erum enn þá með fullt af undanþágum sem ég vil gjarnan ræða í nefndinni þegar þangað kemur. Ég nefni t.d. laxveiðileyfi. Þau eru undanþegin af því að það er litið á þau sem leigu af ánni. Ég vil skoða af hverju þau eru ekki virðisaukaskattsskyld. Ég hef nefnt fjöldann allan af öðrum þáttum sem mætti gjarnan skoða. Það er heilmikið af flutningum sem eru virðisaukaskattsfrjálsir. Ég mundi vilja skoða að taka þá bara inn líka. Þá fá menn innskattinn og geta notið kerfisins í heild.

Virðisaukaskattskerfið er orðið mjög götótt enda tekjur af því ekki nægilega miklar miðað við það sem tilefni er til.

Menn hafa komið ansi mikið inn á það hérna að þetta komi illa við lægstu tekjuhópana. Við höfum eina neyslukönnun frá Hagstofunni um það í hvað hinir fjóru tekjuhópar, þ.e. þeir sem eru í lægsta fjórðungnum, þeir sem eru í öðrum fjórðungi og þriðja og fjórða fjórðungi, eyða í mat af ráðstöfunartekjum sínum. Það er svo merkilegt, herra forseti, öndvert við allt það sem menn segja hérna, að þessir hópar eyða nokkurn veginn 15% í mat plús/mínus einhver brot úr prósenti. Hátekjufólk eyðir jafn miklu í mat hlutfallslega og lágtekjufólkið.

Maður hefði haldið að það þyrftu allir að borða, segja menn. — Jú, jú, en menn geta keypt humar og nautalundir í öll mál, hátekjumennirnir, og hent mat o.s.frv., bruðlað með mat og svo geta menn líka keypt sér baunir og kartöflur. Mín reynsla er sú gegnum æviskeiðið, ef við eigum að fara að segja sögur af því, að þegar að kreppir þá spara ég í mat. Það vill svo til.

Svo er spurning: Hvað gera menn við restina af ráðstöfuninni sinni, 85%? Í hvað skyldi það fara? Það vil ég að nefndin skoði mjög nákvæmlega. Það eru reyndar til um það tölur. Ég hygg að lægsti tekjuhópurinn setji það allt saman í einhverja neyslu. Efsti tekjuhópurinn setur eitthvað af því í sparnað og borgar engan virðisaukaskatt af því. Ég hugsa að niðurstaða slíkrar könnunar mundi sýna okkur að lægsti hópurinn eyði mest í efra þrepið af þessum þremur hópum, þ.e. sem er 25,5% í dag, og muni njóta lækkunarinnar meira en aðrir tekjuhópar. Það segir mér hugur, en þetta er bara eitthvað sem ég er að skálda.

Vörugjöldin munu koma öllum tekjuhópunum til góða og kannski frekast þeim sem hafa lægstar tekjurnar því að það þurfa allir þessi tæki. Ég nefndi hérna áðan hluti eins og síma sem allir eru komnir með, gemsa. Ég nefndi ekki tölvur og annað slíkt sem allt er í efra þrepinu. Ég hugsa að þegar upp er staðið muni þetta frumvarp koma betur við þá sem lægstar hafa tekjurnar en hina.

Þetta eru getgátur og ég vil gjarnan að hv. nefnd fari í gegnum þetta og skoði sérstaklega ráðstöfunartekjur eftir að búið er að telja lán frá LÍN til námsmanna sem tekjur því að þau eru ráðstöfunartekjur þótt þau séu tekin að láni því að annars skekkja þau alla umræðuna, líka um fátækt, herra forseti. Námsmaður eða hjón með þrjú börn, sem eru bæði í námi, fá lánað fyrir framfærslunni og börnunum, umtalsvert fyrir börnunum, en geta verið tekjulaus. Samkvæmt allri tölfræði eiga þau óskaplega bágt en eru sem sagt bæði að læra að verða verkfræðingar, annað kannski verkfræðingur og hitt læknir svo að maður hafi þetta dálítið skrautlegt, og eru að fjármagna menntun. Menntunin kemur ekki fram á skattframtali sem eign en skuldin, námslánið, kemur fram sem skuld þannig að staða heimilisins versnar og versnar allan námstímann. Þau eru tekjulaus með vaxandi skuldir og staðan er ömurleg. Við viljum samt, herra forseti, að fólk mennti sig, eða hvað? Og það sem meira er, Gini-stuðullinn vex af því að fólkið er tekjulaust á ákveðnu æviskeiði og hefur síðan háar tekjur í lok þess þannig að aukin menntun þýðir hækkun á Gini-stuðli, þ.e. ójöfnuðurinn í þjóðfélaginu eykst þegar fólk menntar sig. Ég ætla að vona að enginn dragi þá ályktun að ég sé á móti menntun, það er ég alls ekki, ég er bara að benda á þetta.

Í sambandi við niðurfellingu á vörugjöldum í þessu frumvarpi þá var einhvern tímann verksmiðja hérna sem framleiddi ullarteppi uppi á Álafossi. Þá voru vörugjöld eða tollur settur á gólfefni. Þegar verið að leggja gólfefni nú í dag á íþróttavelli er þetta vörugjald enn þarna, mörgum áratugum eftir að ástæða var til og löngu eftir að ullarteppaframleiðsla á Íslandi lagðist af.

Ég er mjög ánægður með þessa niðurfellingu á vörugjöldum. Mér þykir það mjög hugrakkt skref hjá hæstv. fjármálaráðherra og gleðst verulega yfir þessu.

Frumvarpið í heild sinni lýst mér vel á. Þetta er skattalækkun. Ég hef alltaf verið mjög hlynntur skattalækkunum. Ég hlýt því að styðja þetta eindregið og þó að inni í þessu séu skattahækkanir á matvörur, sem allir tekjuhópar borga, þá gleðst ég yfir skattalækkun í efra þrepinu og alveg sérstaklega yfir niðurfellingu vörugjalda.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil endurtaka það að mér þykir þetta mjög gott frumvarp. Mér finnst umræðan vera mjög skökk.