144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði á hv. þingmann halda ágæta ræðu — en ég saknaði gleðinnar. Hann minntist ekki á vörugjaldafrumskóginn sem á gjörsamlega að fara að höggva niður. Hann sagði ekki orð um þá aðgerð. Hann talaði bara um einhver vandræði út af matarskatti o.s.frv. Svo kom hann náttúrlega með enn meiri hugmyndir um að flækja kerfið, setja matarskattinn í 0% og gera kerfið enn flóknara þannig að það séu enn meiri möguleikar á að svindla og komast fram hjá greiðslu virðisaukaskatts (Gripið fram í.) þannig að ég er nú ekki ánægður.

Svo varð ég fyrir vonbrigðum með það að hann ætlar að skera niður enn meira. Það á bara að finna fitu einhvers staðar og skera hana. Ég hélt að menn væru búnir að fá nóg af því að skera niður, það er búið að vera að því núna í fjögur, fimm ár, skera niður og skera niður, og hv. þingmaður segir að það sé enginn vandi að skera enn meira niður.

Ég varð því fyrir dálitlum vonbrigðum og spyr nú hv. þingmann: Er hann ekki ánægður með að vörugjöldin verði lögð af? Getur hann ekki verið pínulítið glaður?