144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

fyrirvari stjórnarliða við fjárlagafrumvarpið.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu hlustum við á ábendingar Alþýðusambandsins eins og annarra aðila á vinnumarkaði þó að menn hljóti að gera þá kröfu til slíkra ábendinga að þær séu á rökum reistar. Að sjálfsögðu hlustum við á ábendingar Bændasamtakanna og jafnvel leyfi ég mér að segja, virðulegur forseti, tel ég ástæðu til að hlusta á ábendingar stjórnarandstöðunnar. (ÖS: Síðan hvenær?)

Við erum það miklir þingræðissinnar í þessari ríkisstjórn að við teljum eðlilegt að mál fái eðlilega þinglega meðferð og geti menn komið með ábendingar um eitthvað sem betur megi fara, sjái menn jafnvel einhver sóknarfæri einhvers staðar sem ríkisstjórnin hafi ekki komið auga á, (Gripið fram í.) eru menn reiðubúnir til þess að fylgja því eftir.

En ég minni á það, og það er ástæðan fyrir því að ég rifja upp „afrek“ síðustu ríkisstjórnar, að menn verða að horfa á heildarmyndina ef þeir ætla að ná árangri fyrir samfélagið allt.