144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir á heiður skilinn fyrir að taka þetta mál upp. Það olli töluverðu umróti þegar það kom fyrst fram í gegnum Wikileaks. Ég tek það fram að ég ber mikla virðingu fyrir Wikileaks en ég er ekki alveg viss um að upplýsingarnar sem þar komu fram hafi að einhverju leyti átt við Ísland.

Það sem kom mjög skýrt fram hjá Wikileaks var að verið væri að vinna að því að gera þetta allt á bak við luktar dyr, það ætti ekki að segja neinum frá og ef viðræðurnar mundu lenda á eyðiskeri mætti ekki heldur segja frá því hvað þar hefði farið fram fyrr en fimm árum síðar.

Þetta mál hófst í minni tíð, þ.e. að ég fékk þá minnisblað með tillögu sem ég samþykkti um að leggja út í viðræður sem voru þá í krafti 5. gr. GATS-samningsins sem veitir framkvæmdarvaldinu heimild til þess. Á þeim tíma voru þetta algjörlega óformlegar viðræður. Ekkert af því sem ég sá eða mér var sagt benti með einhverjum hætti til þess að leynd hvíldi yfir þessu, sannarlega ekki af hálfu Íslands. Það kann vel að vera að einhverjir skuggabaldrar bandarísku ráðuneytanna hafi viljað hafa það þannig, ég varð aldrei var við það. Ég tek eftir því að hæstv. utanríkisráðherra kemur af sömu fjöllum og ég varðandi leyndina.

Ég er sömuleiðis sammála honum um að ekkert sé óeðlilegt við þessar samningaviðræður. Þetta eru samningaviðræður og eins og um alla samninga gildir að um leið og kemur að einhverju mikilvægu þrepi verður það kynnt utanríkismálanefnd og hún fær að segja sínar skoðanir á málinu. Hins vegar vil ég segja algjörlega skýrt að ég tek undir með hv. þingmanni að ég tel ekki koma til greina að Ísland sé á einhvern hátt aðili að samningi sem bryti mannréttindi í þeim mæli sem hv. þingmaður nefndi eða ofurseldi okkur það að styðja í öðrum ríkjum að ekki væri hægt að taka aftur til ríkisins fyrirtæki sem hefðu verið einkavædd. Ég minni á þá fyrirvara sem fyrri ríkisstjórn að frumkvæði hv. þm. Ögmundar Jónassonar (Forseti hringir.) gerði í þeim efnum varðandi t.d. þjónustutilskipunina frægu.