144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um áhyggjurnar gagnvart lífeyrissjóðunum, líka vegna þess að hér er höggvið aftur og aftur í sama knérunninn. Annað atriði sem ég kom ekki að í minni stuttu ræðu snýr að því að ríkisstjórnin dregur einhliða til baka og líka alveg án nokkurs samráðs um það atriði framlag vegna mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna sem skiptir nokkrum milljörðum króna á ári hverju. Það getur aftur haft áhrif til þess að lífeyrissjóðir sjómanna, bænda, iðnverkafólks og annarra hópa, þar sem örorkubyrði er heldur hærri en í mörgum öðrum starfsstéttum, þurfi að takmarka réttindi félagsmanna sinna meðan aðrir sjóðir þurfa þess ekki, m.a. ekki hinir opinberu. Þetta er líka gert algjörlega án samráðs.

Ég held að þegar þingmaðurinn veltir fyrir sér hvaða upphæðir gætu skipt máli fyrir starfsendurhæfinguna skipta auðvitað máli fjárhæðir sem nema hundruðum milljóna króna. Menn hljóta þá að horfa á þetta sem má líta á sem skuld orðið, þessar 840 milljónir, að þá væri að minnsta kosti sett fram einhver áætlun um það hvernig menn ætluðu að vinna á því á einhverjum tíma og síðan standa undir tilfallandi nýjum kostnaði frá einu ári til annars. Það væri að minnsta kosti viðleitni af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessum samskiptamáta forsætisráðherra og fjármálaráðherra við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins vegna þess að þríhliða samstarf ríkisvaldsins, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar er grunnurinn að hinu norræna velferðarsamfélagi, grunnurinn að þeim friði og samstöðu um uppbyggingu jafnt velferðarkerfis sem efnahagsstarfseminnar sem tekist hefur í okkar heimshluta. (Forseti hringir.) Menn sem átta sig ekki á því að þeir þurfi að leggja rækt við það eru á hálli pólitískri braut.