144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt það að nú er svo komið að þeir véla um sem kannski eru engir sérstakir aðdáendur eða stuðningsmenn þessa norræna þríhliða samskiptamódels. Þess vegna er ástæða til að vera á varðbergi þegar svona aðstæður koma upp. Það er hárrétt að það er sérstakt áhyggjuefni, þegar á sama tíma er sýnt á þessi spil, að ríkið dragi sig út úr þátttöku í jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóðanna og það leiði til þess að þeir lífeyrissjóðir muni á komandi árum svitna mjög undan því þar sem er hátt nýgengi í örorku. Það eykur áfram á aðstöðumun í kerfinu. Þetta er áhyggjuefni út frá samskiptum þessara aðila, þetta er stórt áhyggjuefni út frá því hversu brothætt andrúmsloftið er í sambandi við endurskoðun lífeyrisfyrirkomulagsins í heild. Við þekkjum hvílík púðurtunna samskipti almenna lífeyrissjóðakerfisins og opinbera sjóðakerfisins er. Menn hafa verið með mikla vinnu í gangi til að reyna að ná einhvern veginn utan um það. Það hefur ekki tekist enn og akkúrat næsta mál á eftir þessu sem við ræðum nú er frumvarp frá hæstv. ráðherra um að fresta enn eitt árið að takast á við það ástand, halda bara lokinu á pottinum.

Margt leiðir mann að þeirri niðurstöðu að það sé mjög glæfralega teflt hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú er mjög í tísku að vísa í þinglega meðferð mála og þetta fer jú í okkar ágætu efnahags- og viðskiptanefnd þannig að við eigum sjálfsagt fundi með gestum og förum yfir þetta, en ég held að það verði að gera hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hefur kannski ekki tjáð sig mikið um nákvæmlega þennan þátt málsins enn þá, gerir það vonandi hér á eftir, það alveg ljóst að menn munu ekki bara taka við þessu frá honum eins og það er hér fram reitt og afgreiða sisona. Það væri mikill ábyrgðarhlutur að gera það þannig að ég áskil mér að minnsta kosti fyrir minn hatt allan rétt til þess að gera hvað ég get til þess að ná þarna fram (Forseti hringir.) einhverjum lagfæringum þó að það væri ekki nema vísir að því að ríkið axlaði ábyrgð í þessum efnum og setti að minnsta kosti nokkur hundruð milljónir inn í þetta á næsta ári.