144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að taka aðeins þátt í umræðu um þessi mál þó að sjálfsagt hafi flest komið fram sem mér er hugleikið. Umræðan er búin að vera ágæt, að minnsta kosti það sem ég hef haft tök á að hlusta á. Ég var á hádegisverðarfundi með konum úr velska þinginu. Þar eru jöfn skipti stjórnar og stjórnarandstöðu, 30 manns í hvorum hópi þannig að þar þarf að semja um alla hluti, m.a. fjárlögin. Það hlýtur að vera áhugavert að vera í þeirri stöðu. En hér er það ekki svo. Ég var einmitt að velta því fyrir mér í gær þegar reynt var að krefja framsóknarmenn um að gera grein fyrir afstöðu sinni, sem þeir hafa nú einhverjir gert, að það gerir svo sem ekkert til þó að einhverjir þeirra greiði atkvæði — ja, ekki með frumvarpinu eða á móti, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ríkan meiri hluta, þannig að það ætti nú að vera allt í góðu.

Það sem ekki kom fram í umræðunni var það hvernig þeir hyggjast ná markmiði sínu og hver viðmið þeirra eru. Má matarskatturinn hækka eitthvað? Má hann ekkert hækka? Það kom aldrei fram og hefur ekki, að ég held, komið fram í umræðunni. Það væri áhugavert að fá að vita hvernig þeir sjá þá fyrir sér að ná í þessa 20 milljarða af nýjum tekjum sem virðisaukaskatturinn á að skila.

Hér er svo sem búið að fara víða yfir og ég ætlaði rétt að drepa á einstaka lið. Það er ágætt að grípa niður varðandi starfsendurhæfinguna og eins varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð, auðvitað finnst mér vanta sviðsmyndir þar. Það er talað um að VIRK eigi peninga, þurfi ekki meiri peninga, en samt er einhliða ákveðið að ganga úr þessari samvinnu. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið við hverja hafi verið haft samráð. Var einungis haft samráð við ráðuneytin og ríkisskattstjóra en að öðru leyti var ekki haft samráð. Samt snertir þetta auðvitað alla landsmenn. Mér finnst mjög sérstakt að ekki skyldi hafa verið haft samráð við stóru launþegasamtökin. Ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju var það ekki gert þegar um svo stórar ákvarðanir er að ræða? Það eru engar sviðsmyndir teknar út varðandi það. Vissulega hefur atvinnuleysi minnkað, sem betur fer, en ekki er gerð grein fyrir því hvernig bregðast á við og mæta þessum hópum ef Vinnumálastofnun hefur ekki tækifæri til að sinna þessu fólki miðað við það sem komið hefur fram í fjölmiðlum af hálfu forstjóra þess embættis.

Töluvert hefur verið rætt um hlutdeild lífeyrissjóðanna. Það hefur aðeins verið rætt í fjárlaganefnd að stjórnir lífeyrissjóðanna hafa ekki komist að samkomulagi um að hækka iðgjöldin þannig að sjóðirnir séu ekki reknir með svona miklum halla. Það má spyrja sig hvort eitthvert gat sé í lögunum eða hvort eitthvað hjá fjármálaráðuneytinu stoppi það, verið hafa athugasemdir í þá veru að það séu í rauninni ekki bara stjórnir sjóðanna heldur sé líka eitthvert stopp í fjármálaráðuneytinu vegna þess að það muni kosta ríkissjóð svo mikið, þ.e. ef Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á að skila sér innan 10% markanna.

Í næsta lið í frumvarpinu er talað um samkomulag vegna breytinga á lægsta þrepi tekjuskatts og hámarksútsvarinu, það á að framlengja og farið er að tala um samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga.

Ef við snúum okkur svo aftur að styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins, hvar er samráðið við sveitarfélögin? Við vitum það, jú, að það mun lenda á sveitarfélögunum. Hvar annars staðar lendir það þegar fólk dettur sumt með mjög skömmum fyrirvara út af atvinnuleysisskrá, kannski með þriggja mánaða fyrirvara eins og fram kom í umræðunni í gær? Hvert fer það fólk ef enga vinnu er að fá? Það fer á sveitarfélögin. Það sækir sér aðstoð til sveitarfélaganna, að sjálfsögðu, það þarf á framfærslu að halda. Það hlýtur að koma fram í athugasemdum hjá sveitarfélögunum. Ég trúi ekki öðru en að þau spyrni eitthvað við fótum því að þar hefur verið kvartað mikið yfir því að ríkið setji íþyngjandi reglugerðir án þess að með því fylgi fé. Þetta er að mínu viti akkúrat svoleiðis aðgerð.

Það hefur líka verið talað um að það sé ekki rétt hjá ASÍ eða miðstjórninni og ályktun hennar í gær að þetta komi illa við launafólk eða að þetta hafi þau áhrif sem ríkisstjórnin telur að það hafi ekki. Það er mjög umhugsunarvert ef það er þannig að stór samtök eins og ASÍ, Bændasamtökin og fleiri sem gert hafa athugasemdir við þetta, misskilja það sem fram er sett, ef enginn getur reiknað sig að niðurstöðu ríkisstjórnarinnar. Það er mjög sérstakt. Þá þurfum við að laga framsetninguna ef hlutirnir eru svo illskiljanlegir, það hlýtur að vera, af því að ég ætla hvorki Bændasamtökunum né ASÍ að misskilja viljandi eða reikna skakkt, ég ætla fólki það ekki sem fer fyrir þeim samtökum. Ég held því að það sé eitthvað sem ríkisstjórnin verði að hlusta á.

Það er líka umhugsunarvert að hér sé lagt fram frumvarp sem vitað er að á að taka svo miklum breytingum að það verði allt annað en það sem lagt var fram. Ég kallaði eftir því hér í upphafi og ég kalla eftir því áfram, af því að hér situr nú framsóknarmaður í salnum: Hvað er það sem vantar í frumvarpið og textann? Hér hefur bara verið talað um að það eigi að koma öllum til góða og að enginn megi verða út undan o.s.frv., sem ég tek undir. Það er bara sérstaklega varðandi þá sem minna hafa. Ég spyr: Hvað er það sem vantar í frumvarpið? Það kom t.d. ekki fram í svari hæstv. forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag þegar hv. þm. Katrín Jakobsdóttir innti hann eftir því hvað það væri í rauninni sem Framsóknarflokkurinn hefði ekki staðfestingu um í framlagningu frumvarpsins. Hvað er það sem vantar til þess að þeir sannfærist? Ef það er ekki nógu skýrt hjá öðrum ríkisstjórnarflokknum þá er ekkert óeðlilegt að það sé ekki skýrt hjá öllum hinum. Þetta er mjög sérstakt.

Hér hefur mikið verið talað um að það séu ekki bara lúxusvörur sem fá lægri virðisaukaskatt heldur líka nauðsynjavörur, og það er alveg rétt. En er þá ekki heppilegt að sortera betur? Ég held að við hljótum að vera sammála um það, og eins og varðandi lýðheilsurökin, að það hlýtur að vera óeðlilegt að þær vörur hækki sem fólki er bent á að nota — við erum að efla tannlækningar o.fl. en svo lækkum við skattinn á sælgæti og gosi. Þetta fer ekki saman. Það er bara kostnaður á móti lækkun þar.

Við vitum að þegar fólk þarf að fara að hugsa enn meira um eyðsluna vegna þess að það hefur minna á milli handanna er tilhneiging hjá því að fara í ódýrari matvöru, minna holla, og þá erum við farin að bíta í skottið á okkur.

Spurt var í gær hversu hátt hlutfall eigi að greiða í gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, hversu mikið megi greiða út. Mér finnst með það eins og margt annað að það vanti sviðsmyndir. Verið er að setja fram einhverjar hækkanir eða lækkanir en það á eftir að setja sviðsmyndirnar; hvernig mun þetta líta út? Á hverjum lendir þetta? Og ef ekki á að taka lán til þess að byggja, þegar við vitum að brýn þörf er á endurbótum í húsnæðismálum aldraðra, hvað á þá að gera? Það er eins og allt eigi að koma eftir á.

Ég hugsa til þessa frumvarps og þess sem þeir þingmenn hafa sagt sem hér hafa setið og ég hef hlustað á. Ég vitna þá aftur í hv. þingmenn Framsóknarflokksins, m.a. Ásmund Einar Daðason, sem talaði mikið fyrir jöfnunargreiðslum varðandi hita og rafmagn og þess háttar, það hlýtur að hljóma ankannalega að þessir aðilar standi að því að þessir hlutir séu að hækka. Það er ekki alveg sama hvernig jöfnuði í fjármálum er náð. Það hlýtur að skipta máli hvar okkur ber niður.

Ég veit ekki hversu margir þingmenn hafa búið á köldum svæðum. Það væri vert að gera könnun á því. Það kostar miklu meira en að búa á stað þar sem maður getur fengið heitt vatn fyrir mun minni peninga, það þekki ég af eigin raun. Ég get reyndar ekki sagt að ég hafi búið á köldu svæði en ég hef hins vegar þurft að kynda hús með rafmagni og ég hef þurft að kynda hús með heitu vatni, það er tvennt ólíkt í rekstri. Þessi hækkun er því ekki góð fyrir landsbyggðina.

Það má líka segja varðandi landsbyggðina, af því að við höfum verið að ræða um virðisaukaskatt, að áður en virðisaukaskatturinn er lagður á vöruna er búið að gera ráð fyrir flutningskostnaði og öðru, að þetta frumvarp íþyngir enn meira þannig að varan út á land fer að kosta enn meira en hún kostar í dag. Því miður lítur það þannig út.

Mikið hefur verið rætt um S-lyfin í fjárlaganefnd. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé bara þannig að annaðhvort þurfi að skera niður eða auka greiðsluþátttöku, annað sé ekki í boði, það séu ekki til peningar. Það má vel vera að ríkisstjórnarflokkunum þyki það tugga þegar við í stjórnarandstöðunni bendum á að hægt sé að ná í fjármuni annars staðar, en það er bara ekki vilji til þess. Það er vilji til þess að auka álögur á veikt fólk upp á 145 milljónir. Það er ekki vilji til þess að taka peninga af útgerðinni í auknum mæli þrátt fyrir að hún skili ljómandi fínum hagnaði. Það er ekki vilji til þess að framlengja auðlegðarskatt með breytingum, sem er mjög auðvelt að útfæra, en það er vilji til þess að auka greiðsluþátttökuna og það er vilji til þess að gera atvinnulausum lífið svolítið þungbærara. Ekki neitt er lagt til er varðar stefnu um hvernig beri að ná fólki út á vinnumarkaðinn að nýju.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að tala um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ég ætla að segja eins og hv. þingmaður sagði hér áðan, þetta er svo mikið klúður. Það er líka áhugavert að núna er verið að sækja peninga í fjáraukalögin til þess að bæta peningum í Framkvæmdasjóð (Forseti hringir.) ferðamannastaða en á sama tíma ætlar ríkisstjórnin að skera enn og aftur niður. (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hún að taka á móti vaxandi straumi ferðamanna?