144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst ég ekki fá svar. Ég átta mig alveg á því að Framsóknarflokkurinn vill, eins og væntanlega Sjálfstæðisflokkurinn, að markmið frumvarpsins náist en þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um hvort hækka má virðisaukaskattinn eða ekki. Hvað ef Framsóknarflokkurinn kemst að því að eins og frumvarpið er lagt fram beri ekki allir jafnt úr býtum, eins og kom að mig minnir fram hjá hæstv. forsætisráðherra? Má virðisaukaskatturinn þá hækka eða ekki? Eða má breyta einhverju öðru?

Mér finnst það skipta máli af því að þetta eru grundvallarbreytingar á kerfinu og það er auðvitað markmið hæstv. fjármálaráðherra að gera grundvallarbreytingar á virðisaukakerfinu, tollakerfinu og tekjuskattskerfinu. Mér finnst það miður, en allt í lagi með það. Ég reyndar er ánægð með að fella á niður tolla, ég ætla ekki að draga úr því, og það er ekkert frumvarp alvont, alls ekki, og í sjálfu sér er margt ágætt í þessu frumvarpi. En þetta eru samt stóru spurningarnar sem ekki hefur verið svarað. Mér finnst hv. þingmenn Framsóknarflokksins koma sér undan því að svara eða svara mjög almennt um þetta atriði.

Varðandi Vinnumálastofnun segir forstjóri hennar að þeim takist ekki að sinna því sem þeim ber að sinna, þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi, miðað við þær fjárheimildir sem þeim eru ætlaðar í þessu frumvarpi. Það er það sem maður er að vitna í. Að sjálfsögðu er eðlilegt að Vinnumálastofnun, líkt og aðrar stofnanir, dragi saman ef umfang þeirra minnkar eða eins og í þessu tilfelli atvinnuleysi minnkar. En ef við göngum það nærri að þjónustan leiðir til aukins atvinnuleysis, eins og sagt er, (Forseti hringir.) þá er það ekki í lagi.