144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið hefur verið gagnrýnt harkalega. Þar hefur mest verið talað um hækkun á matarskatti, á bókaskatti og á styttingu heimildar til þess að greiða atvinnuleysisbætur. Það hefur verið gagnrýnt að ríkisstjórn ríka fólksins geri aðför að þeim sem minna mega sín.

Það er fleira sem er gagnrýnivert í þessu fjárlagafrumvarpi og hv. þingmenn þurfa að gefa gaum. Eitt af því er að gert er ráð fyrir að ársnemendum í framhaldsskólum fækki um 916. Til þess að setja þær tölur í samhengi er það eins og að leggja niður Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem þjónar rúmlega 20 þús. manna samfélagi með öllum sínum nemendum og 90–100 starfsmönnum.

Fækkun nemenda verður um allt land og við þurfum ekki bara að hafa áhyggjur af þeim ungmennum sem fá ekki inngöngu í framhaldsskóla landsins á árinu 2015 eða þeim starfsmönnum sem missa vinnuna sína víða um land, heldur þurfum við einnig að hafa áhyggjur af rekstri smærri skóla á landsbyggðinni, því að fækkunin mun fyrst og fremst koma niður á rekstri þeirra.

Á næstu árum er gert ráð fyrir að nemendum fækki enn meira og árið 2018 komi áhrif styttingar á námstíma til stúdentsprófs inn að fullu. Hvað verður þá um rekstur smærri skóla úti á landi og hvernig verður þá aðgengi að menntun víða um land? Og hvernig verður þá framhaldsskólum landsins gert kleift að þjónusta nærsamfélög sín? Þessu þurfum við að svara. Við þurfum að rýna í það, hv. þingmenn, hvert þessi þróun er að leiða okkur.