144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs hér í dag er vegna frétta á undanförnum dögum um samskipti framkvæmdarvaldsins við hinar ýmsu stofnanir og samtök í þjóðfélaginu.

Viðbrögð samtaka og stofnana við fjárlagafrumvarpinu og flutningi stofnana hafa verið blendin eins og við var að búast og hafa margir gagnrýnt þetta harkalega, nánast öllum finnst að sér vegið og ákvarðanir eru illa ígrundaðar og óútfærðar.

Viðbrögð forustumanna ríkisstjórnarinnar við gagnrýni, t.d. fræðasamfélagsins og verkalýðsforustunnar svo að eitthvað sé nefnt, á flutningi stofnana til landsbyggðarinnar og inn í ráðuneyti og á fyrirhugaðar skattbreytingar í fjárlagafrumvarpinu hafa að mínum dómi verið fullharkaleg og jafnvel hrokafull. Þessi viðbrögð eru í raun alveg óskiljanleg, ekki síst í ljósi þeirra markmiða sem ríkisstjórnin setti sér í stefnuyfirlýsingu sinni. Þar kemur m.a. fram að hún muni stefna að því að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu á undanförnum missirum. Eins muni hún vinna að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.

Hvort sem ráðamönnum finnst þessi gagnrýni eiga rétt á sér eða ekki ber þeim skylda til þess að taka hana til athugunar og virða hana í stað þess að ætla að annarleg sjónarmið liggi að baki henni. Blíða og mildi í samskiptum er ekki merki um veikleika og vonleysi heldur um styrk og ákveðni.

Hæstv. forseti. Ég og við í Bjartri framtíð hvetjum til þess enn og aftur að blásið verði til stóraukins samráðs milli ríkisstjórnar, Alþingis, sveitarfélaga, atvinnulífsins, launþega, fjármálageirans og alls konar samtaka í þjóðfélaginu um langtímamarkmið. Það minnkar óvissu og skapar frið í samfélaginu sem er svo sannarlega það sem við þurfum á að halda nú um stundir.