144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

umferðarlög.

102. mál
[14:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Fram hefur komið að í raun sé ekki um að ræða að horfið hafi verið frá kröfunum með nokkrum hætti, enda sé það hluti af skyldum okkar gagnvart EES-samningnum, heldur miklu frekar framkvæmd málsins, aðlögunartími, fyrirkomulag kennslunnar o.s.frv.

Það hefur gjarnan verið þannig með það sem við köllum kostnaðarumsagnir fjármála- og efnahagsráðuneytisins að það stendur ekki á því að ráðuneytið geti metið hvað fellur á ríkið við lagabreytingar, en hér kemur fram að engar upplýsingar liggi fyrir um hvað endurmenntun muni kosta atvinnubílstjóra í hvert skipti. Skyldi maður halda að þær upplýsingar ættu að liggja fyrir, a.m.k. plús/mínus einhverja hundraðþúsundkalla eða hvað það er, því að þetta er töluverður útgjaldaauki fyrir stéttina. Mér finnst ekki til of mikils mælst að fjármálaráðuneytið og ráðherra innanríkismála geti nefnt einhverja tölu þannig að menn átti sig á því hvert umfangið er.