144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:10]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Við þingflokkur Bjartrar framtíðar leggjum hér fram þingsályktunartillögu sem er nokkurn veginn samhljóða tillögu sem við lögðum fram fyrir ári síðan. Okkur er umhugað um að mörkuð verði stefna í landinu á sviði stjórnmálanna um hvaða gjaldmiðill eigi að vera framtíðargjaldmiðill Íslendinga. Okkur finnst það vera stóra málið í efnahagslífi Íslendinga, það er óútkljáð og við búum við óviðunandi ástand í gjaldmiðilsmálum núna og höfum gert um langa hríð. Við búum við gjaldeyrishöft, það þýðir að viðskipti eru ekki frjáls við útlönd. Það er ófyrirséð hvenær gjaldeyrishöftum verður að fullu aflétt á Íslandi og er jafnvel farið að tala þannig í stjórnmálunum að það verði einhvers konar höft til frambúðar eða hindranir eins og það er jafnvel kallað, hraðahindranir í viðskiptum við útlönd. Það er að mati okkar flutningsmanna óviðunandi. Það þarf að finna lausn í gjaldeyrismálum Íslendinga sem felur í sér viðskiptafrelsi.

Við Íslendingar höfum um langt skeið búið við allt of háa vexti á neytendalánum og húsnæðislánum og búum við kerfi verðtryggingar, sem er viðbragð við háu vaxtastigi á Íslandi og áhættu í efnahagslífinu. Það er skoðun okkar að úr þessu ástandi megi komast varanlega og til frambúðar með því að huga að því hvaða gjaldmiðil við notum í viðskiptum. Gjaldmiðillinn sem við höfum notað, íslenska krónan, hefur falið í sér of mikla áhættu og hefur það endurspeglast í vaxtastiginu og því að við búum við verðtryggð lán.

Það endurspeglar líka vandann sem við erum í með gjaldmiðilinn núna að við þurfum að fjármagna gjaldeyrisvaraforða upp á hátt í 400 milljarða. Hann er tekinn að láni og vissulega gefur hann af sér vexti en hann leiðir líka til mikilla vaxtaútgjalda beint úr ríkissjóði upp á hátt í 20 milljarða á ári. Það er nú beinharði reikningurinn sem berst skattborgurum á hverju ári við það að halda úti íslenskri krónu. Mætti nota þá peninga í margt annað með því að taka upp það fyrirkomulag í gjaldmiðilsmálum sem ekki þarfnast skuldsetts gjaldeyrisvaraforða.

Tillagan sem við leggjum hér fram felur ekkert annað í sér en að Alþingi feli ríkisstjórninni að móta stefnu til framtíðar í gjaldmiðilsmálum, að ákveða á upplýstan hátt og eftir vandlega skoðun hvaða gjaldmiðill henti Íslendingum best. Og þó að hann verði ekki tekinn upp á morgun eða hinn verði stefnan alla vega mörkuð. Bara það mundi hafa góð áhrif á íslenskt efnahagslíf.

Við leggjum til að við ákvarðanatökuna um það hvaða framtíðargjaldmiðill eigi að vera notaður í viðskiptum á Íslandi verði horft til nokkurra þátta; horft verði til þess að notkun gjaldmiðilsins efli traust á íslensku efnahagslífi til langs tíma litið. Það má halda því fram að meginvandi íslensks efnahagslífs sé traustsvandi. Þess vegna mundi fjármagn leita út úr íslensku hagkerfi ef höftum yrði aflétt, erlendir aðilar mundu vilja skipta yfir í aðra gjaldmiðla, erlendir eigendur krónueigna, en líka innlendir.

Það er skoðun okkar að gjaldmiðill eigi að auka möguleika á stöðugu verðlagi, lægri vöxtum og betri lífskjörum. Það er líka skoðun okkar að gjaldmiðillinn eigi að auka frelsi í viðskiptum við útlönd. Við það búum við ekki, eins og ég fór yfir áðan. Það er skoðun okkar að gjaldmiðillinn eigi að henta íslensku atvinnulífi og hafa góð áhrif á atvinnustig og útflutning. Það tengist stöðugleikamarkmiðinu og markmiðinu um viðskiptafrelsi. Gjaldmiðill sem er stöðugur og án hafta hefur hann góð áhrif á atvinnustig og eykur fjölbreytni í atvinnulífi.

Það er mikilvægt að gjaldmiðillinn auðveldi hagstjórn og minnki áhættu í íslensku efnahagslífi og sé áhættuminni en aðrir valkostir. Við teljum ekki að til sé einhver valkostur sem er fullkominn. Allir valkostir í gjaldmiðilsmálum hafa í för með sér einhverja erfiðleika og einhverjar áskoranir. En þetta er einfaldlega upplýst mat sem þarf að fara fram og gera þarf rökstuddan samanburð.

Svo viljum við að gjaldmiðilsstefnan sé vel framkvæmanleg með hliðsjón af öðrum samhliða aðgerðum sem þörf er á á sviði ríkisfjármála, peningamála og í samningum við önnur lönd.

Við vitum vel að nú situr ríkisstjórn sem ekki vill aðild að Evrópusambandinu en við ætlum að láta okkur það í léttu rúmi liggja. Við teljum samt að fara þurfi í þessa vinnu. Við getum ekki bara sleppt þessari mikilvægu vinnu af-því-bara, vegna þess að ríkisstjórnin vill ekki ganga í Evrópusambandið, nánast af-því-bara. Þetta er vinna sem þarf að fara fram. Alveg burt séð frá því hvort við viljum ganga í Evrópusambandið eða ekki þá hljótum við öll að viðurkenna að við viljum ekki búa við krónu í höftum. Þá þarf að taka upplýsa ákvörðun um hvaða kostur er bestur annar en króna í höftum.

Út kom góð skýrsla á vegum Seðlabanka Íslands haustið 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum. Í raun er það eina sem við erum að biðja um í þingflokki Bjartrar framtíðar að sú skýrsla sé tekin upp á næsta borð, að þær niðurstöður sem fram koma í þeirri vönduðu skýrslu séu teknar inn í þennan sal, inn í svið stjórnmálanna, og ákvarðanir teknar um það hver eigi að vera framtíðargjaldmiðillinn, m.a. byggt á þeim niðurstöðum sem þar koma fram. Við þurfum að útkljá þetta mál. Í þessari skýrslu eru raktir margir kostir en það eru tveir sem fá svona þokkalega einkum og eru taldir raunhæfir valkostir; það er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, eða, sem verður auðvitað alltaf að vera kostur vegna þess að það er auðvitað óvíst hvort við göngum í Evrópusambandið, að hafa fljótandi íslenska krónu.

Ég skil skýrsluna þannig að sá kostur sé metinn sigurstranglegri og betri fyrir íslenskt hagkerfi að taka upp evru. En auðvitað eru kostirnir fleiri, hægt er að taka upp aðra mynt einhliða. Sá kostur fær falleinkunn í skýrslu Seðlabankans. Svo er hægt að hafa krónu í höftum. Er það í raun og veru vilji ríkisstjórnarinnar að hafa krónu í höftum? Það er aðkallandi spurning. Með því að vilja ekki takast á við spurninguna um það hver eigi að vera framtíðargjaldmiðill Íslands, hvert eigi að vera framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmála á Íslandi, er í raun og veru verið að segja að menn ætli að búa við krónu í höftum. Svo er hægt að fara hálfa leið inn í evrusamstarfið eins og Danir gera, fara inn í ERM II og láta þar staðar numið. Það getur vel verið að það henti íslensku efnahagslífi.

Það var svolítið athyglisvert að hlusta á fyrirlestur hagfræðings á dögunum. Það var fínn fyrirlestur um stöðuna í ríkisfjármálum á þingi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins. Þar var mikið rætt um skuldastöðu ríkissjóðs og fór hagfræðingurinn yfir það á ágætan hátt í máli sínu hvaða eignir væri hægt að selja til þess að koma ríkissjóði í betri skuldastöðu. Mátti skilja það á máli hagfræðingsins að það væri jafnvel skynsamlegt að selja eignir eins og Landsvirkjun og eignir ríkisins í fjármálakerfinu til þess að borga upp skuldirnar sem við notum til að fjármagna gjaldeyrisvarasjóðinn, sem eru eitthvað um 400 milljarðar. Ég sá að margir kinkuðu kolli og ég fór að hugsa aðeins um það.

Erum við virkilega orðin svo þrjósk og forhert eða blind á það hvað íslenska krónan kostar okkur að það er í alvörunni farið að tala um að selja allar eigur ríkisins, þar á meðal Landsvirkjun, sem getur orðið sameiginlegum sjóðum og hefur verið það, sem getur orðið miklu meira, mjólkurkýr? Er virkilega farið að tala um að það sér skynsamlegt að selja eigur ríkisins til þess að fjármagna íslensku krónuna með öllum þeim göllum sem hún hefur í för með sér? Eigum við ekki frekar að íhuga hvort við ættum kannski að taka upp annan gjaldmiðil, taka upp evruna? Þá þurfum við ekki gjaldeyrisvarasjóð. Þá þurfum við ekki að fara að íhuga það að selja mjólkurkýrnar til að fjármagna þessa krónu.

Mig langar að skilja þessa hugleiðingu hér eftir bara til þess að reyna að bregða birtu á það í hvers lags öngstræti þessi umræða öll er komin og hversu mikilvægt það er að við ræðum þessi mál á opnari hátt þar sem við íhugum og förum vel yfir hvaða skynsamlegir kostir eru í stöðunni í gjaldmiðilsmálum og tökum síðan upplýsta ákvörðun um það hvert við viljum stefna á Íslandi í þessum efnum.