144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í umræðu um þetta mál en get ekki látið hjá líða í ljósi þessara furðulegu orðaskipta sem hér hafa átt sér stað milli hv. þingmanna Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Vilhjálms Bjarnasonar, samflokksmanna fjármálaráðherra sem flytur þetta frumvarp. Við höfum í stjórnarandstöðunni orðið við beiðni fjármálaráðherra um að flýta framgangi þessa frumvarps vegna þess að fyrir því væru efnisleg rök. Við gerum það náttúrlega ekki með lokuð augun eða vitandi ekkert um hvað við tekur.

Það kom skýrt fram fyrir nefndinni að í gangi eru viðræður við hagsmunaaðila um breytingar á A-deildinni og ég skil ekki að það geti ekki komið skýrt fram í umræðu. Það kom skýrt fram á fundum nefndarinnar. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins komu og sögðu að í gangi væru viðræður sem ætti að ná niðurstöðu í fyrir lok ársins. Þess vegna stendur í nefndaráliti sem ég skrifa undir án fyrirvara að rétt þyki að veita frekari tímafrest til að leiða þessa vinnu til lykta en nefndin telji mikilvægt að henni verði lokið hið fyrsta.

Markmiðið er sem sagt að ekki komi til frekari framlenginga. Það er skýrt markmið okkar nefndarmannanna sem skrifum undir án fyrirvara. Ráðherranum til varnar og ráðuneytinu þá kom algerlega skýrt fram í nefndinni að vinna væri í gangi og að henni ætti að ljúka fyrir áramót og því svolítið skringilegt að heyra þessi orðaskipti milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ekki virðast vita upp eða niður í því máli sem þeirra eigin formaður er að flytja. Það er auðvitað engin ástæða til að veita henni frest ef ekki er verið að vinna í málinu. Ráðuneytið sagði það alveg skýrt að verið væri að vinna í málinu, útskýrði þær efnislegu hugmyndir sem þar væru í gangi og að það væru góðar vonir um að niðurstaða næðist svo að hér gæti frumvarp komið inn, eigi síðar en á vormánuðum, þannig að þetta væri í síðasta skiptið sem til þessarar framlengingar kæmi. Það er forsenda þess að ég samþykkti þetta frumvarp, þau skýru fyrirheit sem veitt voru af hálfu ráðuneytisins. Þau liggja algerlega fyrir og óþarfi að vera að kalla eftir þeim núna til þess að koma með þau á morgun. Þau voru gefin í nefndinni í gær og voru forsenda nefndarálitsins eins og það stendur.