144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Að sjálfsögðu snúa gæðin að hraðanum og örygginu, hvoru tveggja. Nýverið fór rafmagnið af Vestfjörðum eins og mikið hefur verið rætt um. Það hefði getað farið þannig að ef hefði komið upp eldur að ekki hefði verið hægt að kalla út slökkviliðið, sem er mjög alvarlegt. Auðvitað fer því miður þannig fyrir landsbyggðinni að hún nýtur ekki sömu gæða og öryggis og þéttbýlið.

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að þó svo að ýmislegt vanti upp á á landsbyggðinni að við sláum ekki af kröfunni, þ.e. þó að ekki sé rafmagnsöryggi einhvers staðar sitji allir við sama borð þegar kemur að aðgengi að almennilegri netþjónustu. Og að sjálfsögðu er það þannig að þegar við tölum um grunnstoðir samfélagsins er mjög hæpið að þær eigi að vera í einkarekstri.

Það átti nú að vera þannig þegar Síminn var seldur að þessi grunnþjónusta væri tryggð. Það er ekki þannig. Mér finnst því að við þurfum virkilega að endurskoða þetta því að þegar Síminn var einkavæddur held ég að margir hafi ekki haft þá framsýn, þó þeir væru nokkrir, hve netið mundi spila stóran þátt í okkar daglega lífi. Það mun bara aukast.