144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að ef ríkisstjórnin mundi forgangsraða fyrir þennan hóp væri það mjög gagnlegt. Það má kannski skýra það betur í starfi nefndarinnar. Ég vænti þess að í nefndinni komi einhverjar tillögur um að gera þessa tillögu enn betri því betur sjá augu en auga. Ég held að það hafi ekki verið nein sérstök dýpri hugsun um það af hverju ríkisstjórnin ætti að gera það frekar en hópurinn. Ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að betra sé að ríkisstjórnin feli hópnum að gera þetta er það mér alveg að meinalausu.

Ég vil bara að við förum í þetta verk sem allra fyrst því ég hef áhyggjur af stöðunni. Ég fór fyrst að nota netið 1990 og vinna við netið 1995. Ég vann mikið heima og mér fannst þetta mjög heillandi út af því þá gat ég unnið vinnuna mína heima og verið heima með krökkunum. Mér þótti það alveg frábært. Ég gerði þetta í og með út af því að ég var að vonast til þess að ég gæti búið út á landi, ég var alltaf með eitthvert blæti um það. Með netinu gæti ég búið úti á landi og unnið við hvað sem er, hvenær sem er, og ekki verið bundin við einhvern sérstakan stað eins og höfuðborgina til þess að vinna að sértækri vinnu.

Því miður hefur það ekki þróast þannig, eftir öll þessi ár, að þessi draumur sé orðinn að veruleika. Ég veit að það bíða margir eftir úrlausnum. Þetta kallast í raun og veru á við stefnu ríkisstjórnarinnar um ljós í fjós og ég veit að þetta er eitthvað sem Framsóknarflokkurinn hefur talað um. Ég býst við að Sjálfstæðisflokkurinn sé þessu fylgjandi, ég trúi því ekki að hann sé á móti þessu.