144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

rannsóknarklasar á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma.

24. mál
[19:08]
Horfa

Flm. (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég andsvarið. Hér varpaði þingmaðurinn fram mjög skemmtilegri spurningu sem gaman væri að kljást við varðandi það hvað stjórnmálamenn ættu að gera. Það gæti orðið löng ræða.

Fyrst og fremst vil ég vekja athygli á þrótti fræðasamfélagsins ef það sameinast um ákveðnar rannsóknir, það geti orðið mjög öflugt af því að á Íslandi er ákveðin sérstaða varðandi rannsóknir sem þegar hafa átt sér stað, sem hafa verið gerðar hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem og aðrir eins og læknirinn sem ég nefndi. Þessir aðilar telja sig jafnvel hafa fundið gen sem er öðruvísi á Íslandi.

Ég er ekki vísindamaður þannig að ég ætla ekki að fara inn á það svið, en það er mjög mikilvægt ef við getum fundið okkur sérstöðu þannig að við getum kannski frekar sótt erlent fjármagn út á rannsóknina. Mig langar til að vísa í að bara í þessari viku var talað um þriðja æviskeiðið — ég held að það hafi verið akkúrat ráðstefna í gær sem ég komst því miður ekki á, slæmt af því að ég er nú á því æviskeiði — um að vísindamenn hefðu náð að tengja fólk í klasasamvinnu og í erlent samstarf og náð í Evrópustyrk upp 130 milljónir.

Það er nákvæmlega það sem ég vil reyna að ná fram í tillögunni, að þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég fór yfir það að aðgerðaáætlunin er undir forsæti Sigmundar Davíðs og ég trúi þá ekki öðru en að ríkisstjórnin vísi því beint inn í aðgerðaáætlunina og menn séu þá búnir að fá þangað inn þá punkta sem hér hafa verið ræddir og þetta vísindastarf sé þannig að unnt sé að sækja um styrki til erlendra vísindasjóða.