144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

niðurskurður til embættis sérstaks saksóknara.

[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er litlu nær. Það er alveg ljóst að eitthvert nefndarstarf og einhver skoðun, án þess að nokkrar ákvarðanir hafi mér vitanlega verið teknar um framtíðarfyrirkomulag þessara mála, eru léttar í maga hjá sérstökum saksóknara gagnvart þeirri stöðu sem hann er í í dag með sín verkefni. Þegar fjárveitingar og tími er borinn saman við upphafleg áform má ekki gleyma því að meðferð efnahagsbrota almennt var færð undir embættið á tímanum.

Dæmi um mál sem eru nú að fara til meðferðar eru aðalmeðferð í Hæstarétti í Al Thani málinu, stór markaðsmisnotkunarmál tengd stjórnendum bæði Kaupþings og Landsbankans, Milestone-málið, fjárdráttur tengdur Marple, félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar, CLN-málið sem tengist umboðssvikum upp á 510 millj. evra, Aserta-gjaldeyrismálið, Stím-málið og þannig gæti ég lengi haldið áfram.

Er meiningin að senda sérstakan saksóknara berhentan í hringinn á móti þessum aðilum. Það er enginn niðurskurður hinum megin. Ég hef ekki orðið var að fækkað hafi í lögfræðingahirðinni sem er að takast á við sérstakan saksóknara í dómssölum. Verður ekki að tryggja réttaröryggi í landinu, meðal annars með því að sjá til þess að saksóknari búi við sómasamleg starfskjör? (Gripið fram í: Heyr. Heyr.)