144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

skipan í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

180. mál
[18:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að rökræða það sérstaklega við hv. þingmann hvort hér hafi verið á ferðinni eitthvað sem hann er ósáttur við eða telur að hefði mátt vinna öðruvísi. Heimildin er algjörlega skýr. Ég verð að viðurkenna það, vegna þess að ég veit til þess, og ég hef skoðað það, að það hefur margsinnis gerst í íslenskri sögu að menn hafi verið færðir á milli lögregluembætta, að lögreglustjórar hafi verið færðir á milli embætta eða sýslumenn. Það er fremur algengt. Það er hins vegar fremur óalgengt að ráðuneytisstjórar séu færðir á milli og mér finnst það pínulítið sérkennilegt — og ég ætla að segja það hér — að í fyrsta skipti sem við færum konu á milli með þessum hætti skuli það vera gert að sérstöku máli hér í þingsal. (ÁPÁ: Þetta er ómerkilegt.) Já, þingmaðurinn (Gripið fram í.) getur kallað það ómerkilegt, en mér finnst það sérkennilegt. (Gripið fram í.) (ÁPÁ: … svara fyrir sig, hæstv. ráðherra.)

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég hélt að ég væri með málið. Ég hef útskýrt hvers vegna ég tók þessa ákvörðun. Það hafa ráðherrar ítrekað gert, þar með talið virðulegur þingmaður, það hefur ítrekað verið gert. Í fyrsta skipti í sögunni sem það gerist að kona er flutt með þessum hætti, í fyrsta skipti sem það gerist að kona tekur við þessu stóra embætti hér í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, telur þingmaðurinn ástæðu til að spyrja um það.

Ég spyr bara: Hvers vegna í ósköpunum hefur hv. þingmaður eða þingheimur ekki spurt ráðherra ítrekað um það þegar þetta hefur gerst? Vegna þess að það hefur áður gerst. Það er óvanalegra þegar um er að ræða ráðuneytisstjóra en lögreglustjóra. Það er þess vegna sem ég nefni það að það sé talin sérstök ástæða og ég er búin að útskýra að heimildin er skýr og það var mín ákvörðun að ráðstafa málinu með þessum hætti og ekkert óvenjulegt við það. Ég tel að sú ráðstöfun hafi verið afar farsæl. Ég er sannfærð um að í ljós muni koma að hún hafi verið sérlega farsæl.