144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Varðandi hin skelfilegu hryðjuverka- og glæpasamtök ISIS er ánægjulegt að segja frá því að haft var samráð við hv. utanríkismálanefnd af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og sem betur fer var algjör samstaða um að taka fast á móti þessum skelfilegu öflum sem fara fram með ömurlegum hætti eins og við þekkjum.

En ég ætla nú ekki að ræða það. Ég vildi bara lýsa því yfir, út af umræðum sem staðið hafa að undanförnu, að samkeppni er góð og líka í mjólkuriðnaði. Við sáum í sjónvarpsþætti um daginn, ég horfði fyrst og fremst á fyrri hluta þess þáttar, að umræða um slík mál er svolítið á sama stað og var fyrir 40 til 50 árum. Það var upprifjun og upplifun að fylgjast með syni þrautseigs frumkvöðuls, Hafsteins Kristinssonar, fara yfir sögu fyrirtækisins og föður síns. Sem betur fer gaf sá einstaklingur og það fólk sem vann með honum ekki neitt eftir og þess vegna erum við með ákveðna fjölbreytni á þessu sviði. Ég held að það sé ágætt að hugsa til þess að það er nokkuð sem við hefðum ekki viljað missa af. Það hagnast allir á því að hafa fjölbreytni, nýsköpun og samkeppni. Það snýr ekki bara að neytendum og bændum, það snýr að öðrum undirstöðuatvinnuvegi sem er ferðaþjónustan. Við Íslendingar búum svo vel að við erum hér með góð matvæli, við erum með heilnæm og góð matvæli. Við verðum aldrei ódýrustu matvælaframleiðendur heims en við erum með matvæli í hæsta gæðaflokki.

Ef við erum ekki með nýsköpun og samkeppni á þessu sviði missum við af tækifærinu. Ég fagna frumkvæði hæstv. landbúnaðarráðherra, að fara nú að endurskoða allt kerfið. Það er vel og það er afskaplega mikilvægt að við vinnum vel og örugglega í því máli því að (Forseti hringir.) miklir hagsmunir eru undir fyrir alla þjóðina.