144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Á haustin þegar skólarnir byrja hefst árleg umræða um mikilvægi þess að foreldrar passi að kaupa réttar skólatöskur fyrir börnin, raði rétt í þær og hafi þær rétt stilltar. Ég brosi alltaf þegar þetta byrjar vegna þess að þá minnist ég þess þegar ég var svo heppin að fá að fara níu ára gömul í grunnskóla í Svíþjóð, fyrir 30 og eitthvað árum. Þar var ekkert heimanám og engin skólataska, heitur matur í hádeginu, ókeypis fyrir alla. Þetta var eins og að fara ljósár fram í tímann. Þótt mér hafi fundist gaman í skóla og allt í lagi með það þá hefur mér alltaf fundist heimanám hálfleiðinlegt. Ég kunni því virkilega vel að meta þetta. Allt dót sem skólabörnin höfðu var bara geymt í stofunni í skólanum.

Ég velti stundum fyrir mér bæði varðandi heimanámið og svo hinn óhjákvæmilega fylgifisk sem er skólataskan sem börnin burðast með og er stundum stærri en börnin sjálf, hvort við séum föst í einhverju fari og hvort við vitum af hverju við erum að þessu. Skilar heimanám einhverjum árangri fyrir krakka upp að tíu ára aldri?

Mér finnst við þurfa að taka þessa umræðu þegar við erum beinlínis með herferðir í gangi. Ég fann t.d. grein á heimasíðu landlæknis með yfirskriftinni „Of þungar skólatöskur geta skaðað bakið“. Það getur verið að sumir foreldrar lesi ekki greinarnar sem iðjuþjálfarnir skrifa og þar af leiðandi verði skólatöskurnar of þungar. Er það ekki ábyrgðarhlutur?

Ég vigtaði einu sinni bók sem dóttir mín var með í íslensku. Hún var eitt kíló. Þetta var lestrarbók og verkefnabók þannig að hún þurfti alltaf að fara með hana fram og til baka. Kannski voru unnar þrjár blaðsíður á einum skóladegi og svo var bókinni dröslað heim aftur. Ein bók, eitt kíló.

Mig langar til að kasta þessu inn í umræðuna og spyrja hvort við getum ekki farið að breyta um stíl. Mér finnst þetta eiginlega vera komið út í öfgar. Sjá þessu litlu börn með skólatöskur sem eru liggur við stærri en þau sjálf. Svo erum við hissa á því að börn gangi ekki í skólann.