144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

stofnun samþykkisskrár.

22. mál
[17:21]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Hér gætir örlítils misskilnings. Hugmyndin er ekki sú að útfyllingin á samþykkisskrá eigi sér stað við skil á skattframtalinu heldur er það nefnt sem hugmynd þar sem hægt verði að bjóða upp á það eða stinga upp á því að viðkomandi fylli hana út. Skráningin sjálf yrði aldrei í höndum ríkisskattstjóra eða það þætti mér að minnsta kosti mjög óeðlilegt og ég veit ekki hvers vegna maður mundi vilja gera það. Það er hægt að nota styrktan íslykil eða rafræn skilríki á ýmsum öðrum vettvangi og er gert nú þegar, t.d. til að skipta um lögheimili og trúfélag.

Hugmyndin hér er að nýta sömu tækni til að fólk geti skráð hjá yfirvöldum óskir sínar gagnvart hlutum sem þurfa síðan lagalega stoð, t.d. hvað varðar líffæragjöf. Skráningin sjálf færi fram annars staðar en hjá ríkisskattstjóra. Skil á skattframtali er nokkuð sem allir standa frammi fyrir og það er minnst á það sem tækifæri til að kynna samþykkisskrána. Við vitum það eftir reynsluna frá Spáni að líffæragjöf eykst ekki án almennrar umræðu. Þess vegna þarf sú umræða að eiga sér stað og því er eðlilegt að mínu mati að minna á þetta.

Þetta yrði þá þannig á mannamáli að þegar maður skilar inn skattframtalinu kæmi kannski lítill gluggi sem í stæði: Má bjóða þér að líta yfir samþykkisskrána þína?

Hvar upplýsingarnar væru hins vegar geymdar er í sjálfu sér aukaatriði. Væntanlega yrðu þær geymdar hjá þeim stofnunum sem tilheyra tilheyrandi sviði eða málefni. En sömuleiðis gæti sú þjónusta verið til staðar á island.is-vefnum þar sem meðal annars er skráð lögheimili, trú- og lífsskoðunarfélag.