144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um fleira en við erum ósammála. Ég skil ekki eitt, ég held að við ættum frekar að fagna því í sameiningu að ýmsar stofnanir hafa nú komið fram og sagt að það sé bjartara fram undan en verið hefur. Það er hið besta mál, hið allra besta mál.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni þegar hann talar um að ríkisvæða einkaskuldir. Ég hélt að við værum öll sammála um að það hefði orðið ákveðinn forsendubrestur hér fyrir nokkrum árum síðan. Ég er ansi hrædd um að hv. þingmaður geti talað við margar fjölskyldur sem telja sig hafa orðið fyrir slíkum forsendubresti og mundu telja ansi ósanngjarnt ef verið væri að ríkisvæða einkaskuldir. Mér finnst það dálítið langt seilst. Við höfum verið sammála um það í ríkisstjórninni að orðið hafi ákveðinn forsendubrestur og það var tekinn sérstakur skattur, sérstakur bankaskattur til að fjármagna verkefnið. Það veit hv. þingmaður jafn vel og ég.

Við getum verið ósammála um þetta, en það er alveg á hreinu að við í ríkisstjórninni teljum ekki að nein ástæða sé til að breyta þessum áformum. Þvert á móti teljum við mikilvægt að standa við áformin eins og þau voru lögð upp og eins og gefið hefur verið út. Ég held að það sé líka hluti af því að bjartsýni er að aukast í samfélaginu, fjárfestingar eru að aukast. Það getur líka verið liður í því að menn telja að þessum málum verði mætt af sanngirni, það kannski blæs meiri krafti í einstaklinga, í fyrirtæki og í samfélagið almennt.

Við munum auðvitað framkvæma verkefnið eins og til hefur staðið og ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni um að það feli í sér grundvallarbreytingu á skilningi einstaklinga eða skilningi stjórnmálaflokka eða annarra til þess hvert hlutverk ríkisins er. Þá held ég að verið sé að taka málið ansi langt.