144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:16]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður hlustar á ræðu af þessu tagi upplifir maður auðvitað að maður sé kominn sirka eina öld aftur í tímann.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju vill hann ekki fara aftur í tímann, fyrir 1. mars 1989, úr því að þetta var svona vont, úr því að afleiðingarnar voru svona miklar? Svo vil ég spyrja þingmanninn líka að því hvort í þessum tölum um að neysla á hreinu alkóhóli hafi aukist sé tekin sú staðreynd að hér koma um það bil tíu sinnum fleiri ferðamenn á hverju ári eða um milljón en var 1989. Þeir fara örugglega einhvern tíma á veitingastað og drekka áfengi.

Var eitthvert tillit tekið til þess í öllu þessu að aðgengið batnaði og hefur batnað síðustu 20 árin? Hv. þingmaður segir að neyslan hafi aukist, en getur verið að þegar aðgengi er orðið sæmilegt þá þurfi kannski ekki lengur að vera að brugga heima? Maður getur bara farið út í búð. Og þá er maður kannski ekki heldur að taka einhver önnur vímuefni, heldur fer bara út í búð og kaupir sér bjór. Eru þetta kannski ekki stór atriði sem skipta máli? Af hverju dettur þá engum í hug í öllum þessum Evrópulöndum að takmarka aðganginn? Veit enginn af því sem hv. þingmaður veit? Eru þetta allt tómir bjánar í Evrópu, sofandi? Af hverju grípa þeir ekki í taumana? Og af hverju leggur hv. þingmaður ekki fram frumvarp um að fara aftur til ársins 1988 með verslun á bjór?