144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Talandi um að ganga langt í opinberri umræðu — meðan menn koma fram og taka rökræðuna þannig að þeir líkja þeim sem þeir tala við í þinginu við skrattann þá held ég að menn ættu nú kannski ekki að tala mikið um að menn gangi langt í opinberri umræðu en það gerði hv. þingmaður hér rétt áðan, og finnst það bara fyndið. Þegar hv. þingmaður gengur allt of langt, eins og hann gerir oft, þá er það auðvitað bara fyndið.

Ég veit ekki hvað það var sem ég sagði rangt. Ef hv. þingmaður vill ræða Landspítalann þá var hann með gríðarlegan halla í mjög langan tíma, það var eitt af því sem ég tók á sem heilbrigðisráðherra, kom þar á faglegri stjórn og þar náðist mikill árangur hvað það varðaði. Og ég man ekki eftir stuðningi frá hv. þingmanni við það, þvert á móti var reynt að gera alla hluti tortryggilega sem ég gerði, en sem betur fer héldu menn áfram hvað þá hluti varðaði og hentu ekki út eða breyttu því sem hafði verið gert í tíð minni sem heilbrigðisráðherra.

Varðandi agaleysi er það alveg rétt að ef við skoðum fjölda fjárlagaliða yfir fjárlagaheimildir frá 2006 til 2012 þá voru það 29% árið 2006, 27% árið 2007 og 27% árið 2008. Þetta er allt of mikið, en fór niður í 20% 2009. Árið 2010 fór það í 23% en var svo 2011 komið í 30%. Þetta var því komið yfir það sem var fyrir bankahrunið. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 var það komið í 38%. En þarna á ákveðnu tímabili náðist ákveðinn árangur og þó svo að ég og hv. þingmaður séum ósammála um ýmislegt vona ég að við séum sammála um að við þurfum að laga þessa þætti og ég vona að við getum unnið saman að því að ná þeim árangri.

Ég á voða erfitt með að ræða þessi mál, opinber fjármál, án þess að vísa í ríkisreikning, hvernig mál hafa þróast og annað slíkt. Ég veit ekki hvaða hug hv. þingmaður hefur hvað þetta varðar, hvort ég eigi að biðja hann um að lesa yfir ræðurnar mínar. Ég skrifa þær eiginlega aldrei, en það væri ágætt að hann mundi bara lista upp (Forseti hringir.) hvað má alls ekki segja og hvaða tölur má alls ekki vísa í, af því að hv. þingmaður er svo viðkvæmur fyrir því.