144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stöðuga neyslu — þar koma einmitt forvarnir. Það þarf að upplýsa fólk um það að stöðug neysla á áfengi geti verið mjög skaðleg, það er hluti af forvörnum. Það þarf líka að upplýsa fólk um að það að drekka sig ofurölvi geti líka verið mjög skaðlegt. Svo þarf að upplýsa fólk um að ákveðinn hluti mannkyns verði bara fíklar, áfengisfíklar, þannig að það er líka hluti af forvörnunum. Eins og ég hef getið um áður þá legg ég mikla áherslu á forvarnir.

Svo varðandi aukið aðgengi í Reykjavík, ég er búinn að svara því áður, það verður minni helgiblær. Menn fara ekki inn í sérstaka verslun sem selur ekkert annað en áfengi. Það er bara innan um hinar vörurnar og ekkert meira sérstakt en mjólk og fiskur og annað slíkt sem menn eru að kaupa.