144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er engu nær. Aðgengið hefur aukist, áfengi er sýnilegra núna en nokkru sinni fyrr í samfélaginu, sífellt er kvartað undan því að bann við áfengisauglýsingum sé brotið með því að auglýsa 0,0% bjór eða 0,25% bjór eða hvað það er. Þetta eru kvartanirnar í dag. Ég fæ ekki séð að þær staðreyndir standist sem liggja fyrir okkur að sú tilgáta sé rétt að forvarnir skipti minna máli en ella, vegna þess að forvarnir eru það eina sem við höfum í íslensku samfélagi til að útskýra sífellt minnkandi neyslu unglinga. Ég veit ekki um neinn annan þátt í íslensku samfélagi sem hefur þróast í átt til meiri hafta, hvorki það sem varðar sýnileika, aðgengi, opnunartíma né auglýsingar. Ekkert af þessu hefur þróast í þá átt sem hv. þingmaður virðist meina að beri ábyrgðina.

Áfengiskaupaaldurinn hefur verið 20 ár miklu lengur en þessi þróun á sér stað, lengur en ég hef lifað, ég held alveg örugglega að ég fari rétt með það. Ég spyr aftur: Hvað telur hv. þingmaður að valdi sífellt minnkandi áfengisneyslu unglinga?