144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræddum þetta mál nokkuð mikið í 1. umr. áður en það fór til nefndar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og formann nefndarinnar, Frosta Sigurjónsson, að því hvort hann telji að með þessari afgreiðslu sé fulls jafnræðis gætt gagnvart þeim sem urðu fyrir forsendubresti og urðu fyrir áföllum vegna verðtryggingar húsnæðislána, og um leið hvort hann telji að með þessu sé fullrar sanngirni gætt gagnvart þeim sem lentu í þeim áföllum.

Mig langar líka að ítreka það sem ég spurði um á þeim tíma. Ég geri mér grein fyrir að það kemur fram í minnihlutaáliti á eftir. Lágu fyrir þær upplýsingar sem Hagstofan hefur verið að safna við afgreiðslu þessa máls, þ.e. hvernig þetta skiptist á einstaka lánahópa o.s.frv.?

Annað sem ég spurði líka um þá og veit að hv. þm. var hér í salnum þegar það var og tók þátt í umræðunni: Var rætt um aðra hópa eins og búseturéttarhafa, hvernig verðbólguskotið á þeim tíma lék þann hóp og hvort það væri réttlátt og sanngjarnt að sá hópur yrði út undan hvað þetta mál varðaði?